Einn vinsælasti Facebook hópur landsins, „Við erum öll miðaldra,“ ber nú nafnið „Hópurinn þar sem öll eru vegan feministar.“ Ástæðan er sú að stjórnendur hópsins telja hópinn ekki lengur grundvöll fyrir góðu gríni og því best að leysa hópinn upp.

Inní hópnum voru rúmlega fimmtán þúsund manns þegar mest var. Hófst hópurinn sem tilraun til þess að gera gys að hegðun miðaldra fólks á internetinu. Svo virðist vera sem það hafi tekið á sig dekkri mynd að undanförnu, sé miðað við tilkynningu Sæunnar Ingibjargar Marínósdóttur, stjórnanda, um lokun hópsins.

„Þessum hópi var aldrei ætlað að vera vettvangur fyrir:

*rasisma

*kvenhatur

*klám

*niðurlægjandi skjáskot af alvöru miðaldra fólki

*fitufordóma

*...og aðra fordómafulla eða niðurlægjandi orðræðu eða myndefni gegn minnihlutahópum,“ skrifar Sæunn.

„Samt sem áður er stór hópur af fólki sem telur sumt eða allt ofantalið vera legit miðaldra grín og það að flest ykkar hafi e.t.v. ekki tekið eftir því er merki um hraða afgreiðslu admína og oftar en ekki Facebook yfirvaldsins sem þarf þó töluvert mikið til að misbjóða,“ segir hún.

Niðurstaðan hafi verið sú að ekki væri lengur grundvöllur fyrir góðu gríni og því væri best að leysa hópinn upp.

„Ég kýs að gera það frekar en að afhenda öðrum stjórnartaumana því ég vil ekki bera ábyrgð á að hafa stofnað 15.000 manna hóp og vita ekki hvaða þróun hann tekur þegar um er að ræða slíkan viðbjóð sem hér hefur verið laumað inn. Endilega hættið að senda mér skilaboð og dramaköst. Öllum er frjálst að stofna sína eigin hópa eins og einhver hafa gert.“

Fréttablaðið náði ekki tali af Sæunni við vinnslu þessarar fréttar en svo virðist vera sem nafnabreytingin hafi virkað. Nú geta einungis stjórnendur birt færslur og eru meðal annars þar í hópi þær Sóley Tómasdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, sem báðar eru þjóðþekktir femínistar.

Fréttablaðið/Skjáskot

Nýr hópur strax í loftið

Eingöngu hafa birst færslur sem tengjast veganisma og femínisma og hefur meðlimum hópsins snarfækkað, en þegar þetta er skrifað einungis 13.552 manneskjur eftir. Þá birta nokkrir svör undir færslu Sæunnar og virðast gífurlega ósáttir.

„Ég man eftir því að hafa gengið í hóp sem hét Hópurinn Þar Sem Allir Eru Miðaldra, en ekki þetta drasl,“ skrifar Arnór Hermannsson Wikström nokkur.

Þá hefur einhver gengið svo langt og hreinlega stofnað nýjan Facebook hóp, undir nafninu „Hópurinn þar sem öll eru miðaldra.“ Í henni eru þegar þetta er skrifað 95 manns. Þar fer fram umræða um hvað hafi gerst á hinum hópnum og leggur stjórnandinn Halldór Högurður, sem hefur hund í aðalmynd, til að „vegan liðinu“ sé einnig boðið í hópinn.

„Hvernig væri ef allir færu í það að bjóða vinum sínum í grúppuna, líka Vegan liðinu ...við bjóðum upp á Nautabökur frá Gæðakokkum og þær eru óvart vegan,“ skrifar Halldór og uppsker fjórtán viðbrögð.

„Veganistar drápu gömlu grúppuna“ og það var stofnuð ný til að halda tilverunni á lífi,“ svarar Hallmundur Guðmundsson færslunni.