Hildur lærði grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og teikningu í Høyskolen Kristiania í Ósló þar sem hún vann til verðlauna fyrir frábæran árangur. Hún býr í Ósló.

Sýningin heitir Divulge/Afhjúpun/Røpe. Á henni eru fjórtán málverk. „Ég notast aðallega við akrýl sem grunnefni en einnig blek, túss, lakk, sprey og gullfólíu,“ segir Hildur.

„Málverkin eru af alls kyns fígúrum og lýsa mismunandi andlegu ástandi, frá því að vera undirgefin, dæmd og hrædd, yfir í að vera sterk, hugrökk og yfirveguð. Ég sýni einnig sjö myndir, akrýl og leir, sem sýna upphleyptar 3D píkur sem koma út úr striganum. Þarna er líka stórt verk sem er hangandi lak sem ég hef málað og spreyjað með nafni sýningarinnar.“

Brotinn sími

Einnig er á sýningunni sería af kolateikningum sem ber nafnið Hreinsun/Purification, en það eru fyrstu verkin sem Hildur gerði þegar hún var að undirbúa sýninguna. Hildur sýnir síðan þrjú vídeóverk.

„Í vídeóverkunum vinn ég með sjálfa mig og kynferðislega orku. Í verkinu Cream maka ég á mig rjóma og sýni að ég er frjáls skandinavísk kona sem getur gert það sem hún vill. En staðreyndin og írónían er samt að ég er alltaf dæmd fyrir að vera kynvera.

Í vídeóverkinu Slím er svart slím í bakgrunni sem táknar olíu, tjöru, leðjuna í botninum sem maður þarf að fara ofan í og svo upp úr til að frelsa sjálfa sig. Ég sést maka mig í blóði og munnur með rauðum varalit talar. Í því verki eru tilvísanir í þekktar bíómyndir.

Þarna fjalla ég um ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, ástar- og kynlífsfíkn og það að frelsa sjálfa sig og hætta að vera hrædd.Þriðja vídeóið er hluti af skúlptúrnum sem er á sýningunni og er af mér að endurtaka í sífellu: Fuck you! Verkið heitir Lekandi kynþokki/ Dripping Sexuality.

Skúlptúrinn skapaði ég með sprautufroðu og málaði hann síðan bleikan. Ég gerði mót fyrir síma og vídeóið er á brotnum iPhone-síma innan í skúlptúrnum. Þetta verk er mín mee too-tjáning. Svo er síminn brotinn. Sími af því við erum öll í símanum. Brotinn sími – brotin sjálfsmynd.“

Að fylgja hjartanu

Hildur segist vera að vinna með sjálfa sig á þessari sýningu. „Frá árinu 2018 til 2020 var ég á hraðri andlegri niðurleið. Mér þykir mikilvægt að tala um þessa hluti opinberlega. Það er nógu erfitt að vera andlega veik, en það er helmingi verra þegar maður þarf samtímis að skammast sín fyrir það.

Eftir að hafa náð svokölluðum andlegum botni hef ég unnið mikið í sjálfri mér, með hjálp fagaðila, sálfræðinga, geðlækna, lyfja og alls kyns samtaka. Ég er á betri stað í dag andlega séð en ég hef nokkurn tímann verið.

Þessi myndlistarsýning snýst um þetta síðasta ár. Hún snýst um að koma sér upp úr hinu svartasta þunglyndi, upp í ljósið og litina ... að heila sjálfa sig. Að þora og fylgja hjartanu. Hætta að vera hrædd og ganga ekki inn í óttann,“ segir Hildur.