Barefoot skór eiga að stuðla að eðlilegri notkun vöðva og sina í fætinum og eðlilegri stöðu hans þar sem fóturinn er flatur á jörðinni og ekkert heftir hann. Skórnir eiga að koma sem næst þeirri upplifun að ganga um berfættur.

Hugsunin bak við barefoot skó er að fæturnir fái að vera eins og þeir séu í hönskum. Skórnir eru ekki stífir og heftandi eins og margir skór, sem samkvæmt áhugafólki um barefoot lífsstíl gera vöðva og sinar bara stirðari og veikari líkt og fóturinn væri í gifsi.

Anna, íslensk kona sem uppgötvaði barefoot skó árið 2010, segir að úrvalið hafi aukist mikið síðan þá og þrátt fyrir að skórnir fáist ekki á Íslandi séu netverslanir um allan heim sem senda skóna til Íslands. Barefoot skórnir eru til frá ýmsum framleiðendum og hægt er að kaupa allt frá sandölum upp í gönguskó og allt þar á milli í þessum stíl.

Á Facebook eru umræðuhópar um skóna þar sem fólk ber saman bækur sínar, deilir myndum og mælir með góðum skóm og verslunum sem selja þá.

Anna hefur fylgst mikið með umræðunni um þessa skó og segir að vitundin um þá á Íslandi sé að aukast þó hún viti ekki um marga hér á landi sem nota skóna.

„Ég heyrði viðtal við þá hjá Primal um daginn og þeir sögðust nota barefoot skó. Annar þeirra gekk Fimmvörðuhálsinn berfættur en hann byrjaði í Skinners sokkaskóm. Ég hef líka hlustað á íslenskt hlaðvarp þar sem fótboltamaður sagðist nota svona skó,“ segir hún.

„Þetta gæti verið aðeins meira að koma inn. Fólk hefur líka spurt mig um gönguskóna mína og segist þá hafa heyrt um svona barefoot skó og er þá að forvitnast.“

Barefoot skór eru rúmir svo nóg pláss sé fyrir tærnar. MYND/AÐSEND

Undanfarin ár hefur úrvalið af barefoot skóm aukist gífurlega ef marka má umræðu meðal aðdáenda þessa lífsstíls. Fleiri minni aðilar eru að koma með svona skó og selja þá á netinu, margir eru frá Austur-Evrópu.

Anna segist ekki hafa verið í vandræðum með að finna netverslanir sem senda barefoot skó til Íslands. Allar sem hún hefur skoðað gera það nema ein. Hún skrifaði versluninni og því var kippt í liðinn. Fólk búsett hér á landi ætti því ekki að vera í vandræðum með að kaupa á sig barefoot skó vilji það prófa þá.

Hægt er að fá barefoot gönguskó. Mörgum þykir eflast skrýtin tilhugsun að ganga á grjóti í þunnbotna skóm en því má vel venjast. MYND/AÐSEND

Anna segir að í upphafi hafi margir misst trúna á barefoot skóm því þeir voru auglýstir þannig að fóturinn yrði betri um leið og fólk prófaði þá.

„En málið er að það þarf að fara varlega í byrjun og leyfa fætinum að styrkjast og aðlagast hægt og rólega ef fólk er ekki vant. Altra og Lems eru skótegundir sem er mælt með fyrir byrjendur. Þeir eru með þykkan botn en botninn er sveigjanlegur og tærnar hafa nægt rými. Þeir sem eru vanir hælum gætu þurft að minnka hæðina smám saman. Zero drop þýðir enginn hæll en sumir gætu þurft að byrja með smá hæl til að byrja með til að venjast skónum.“

Anna uppgötvaði skóna fyrir tilviljun á netinu og byrjaði fljótt að prófa sig áfram með þá. Núorðið notar hún ekki annars konar skó.

Barefoot skór eru með þunnan sveigjanlegan sóla. Hægt er að fá þykkari byrjendasóla. MYND/AÐSEND