Leikhús

Er ég mamma mín? -

★★★

Kvenfélagið Garpur í samvinnu við Borgarleikhúsið

Höfundur og leikstjóri: María Reyndal

Leikarar: Arnaldur Halldórsson, Katla Njálsdóttir, Kristbjörg Kjeld, María Ellingsen, Sigurður Skúlason, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson

Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson

Tónlist og hljóðmynd: Úlfur Eldjárn

Búningar: Margrét Einarsdóttir

Aðstoð við handrit, dramatúrgía: Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson

Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

Síðastliðinn sunnudag frumsýndi Kvenfélagið Garpur nýja íslenska leikritið Er ég mamma mín? í samstarfi við Borgarleikhúsið. Síðasta verkefni leikhópsins var Sóley Rós ræstitæknir sem sló verðskuldað í gegn fyrir nokkru. Leikhópurinn sérhæfir sig í frumsömdum íslenskum leikritum sem oftar en ekki snúast um reynsluheim kvenna. Í þetta skiptið snýr hópurinn sér að veruleika kvenna á áttunda áratugnum.

Leitað í grínið

María Reyndal skrifar handritið og dembir sér beint í heim sem virðist fjarlægur samtímanum en er nær en okkur grunar. Áhorfendur eru staddir á fallegu millistéttarheimili; pabbinn situr í húsbóndastólnum, mamman sinnir húsverkum og táningsstelpan fylgist með samskiptum þeirra á milli. Ekki líður á löngu fyrr en fjölskyldufaðirinn byrjar að ausa úr sér misfallegum skoðunum um rauðsokkur og minnihlutahópa. Feðraveldið tekst á við kvenfrelsið, og auðvelt er að hlæja að forpokuðum skoðunum pabbans en hláturinn kostar sitt. Margt er nefnilega allskostar óljóst í lífi þessa fólks. Tónninn í textanum tekur sífelldum breytingum og nostalgíuhláturinn felur dýpri harm. Lífið er kannski grátbroslegt en María Reyndal finnur aldrei samfellda áferð í textanum, og frekar er leitað í grínið og staðalímyndir frekar en að rannsaka hlutina ofan í kjölinn. Stundum tekst þó vel til og uppgötvun Ellu um að hún sé hænuskrefi frá því að verða mamma sín er býsna vel skrifað, sömuleiðis leikið.

Sólveig Guðmundsdóttir hefur verið á miklu flugi síðustu misseri. En heillandi nærvera hennar nær ekki að lyfta upp þunglamalegum textanum. Hún leikur bæði hina fullorðnu Ellu og móður hennar fyrr á tíð. Betri tökum nær hún í hlutverki Ellu, en leikrænt rof virðist vera á milli hinnar ungu móður og hinnar eldri. Sveinn Ólafur Gunnarsson, líkt og Sóley, fer með tvöfalt hlutverk. Annars vegar faðir fortíðarinnar og hinsvegar faðir samtímans. Sveinn nýtur sín miklu betur í hlutverki Guðjóns, í samtímanum, sem gerir sitt besta til að styðja við konuna sína. En töluvert síðri er hann í hlutverki fortíðarinnar og dettur alltof oft í eftirhermuleik.

Kristbjörg stelur senunni

Kristbjörg Kjeld aftur á móti gerir sér lítið fyrir og stelur sýningunni með óborganlegum og eftirminnilegum leik. Í hverri senu á eftir annarri finnur hún nýjan tilfinningaflöt á konu sem fórnaði öllu fyrir frelsið, fyrir sjálfa sig og dóttur sína. Túlkun hennar á kómískum línum byggist á textaskilningi og hlustun sem orsaka flugbeitt tilsvör. Ekki eru dramatískari augnablikin áhrifaminni. Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til að sjá stórkostlega leikkonu sem engu hefur gleymt.

Smærri hlutverk leika María Ellingsen og Sigurður Skúlason, bæði sjást alltof sjaldan á leiksviðinu. María fær því miður ekki nægilegar bitastæðar rullur, hér þá kannski helst sem skelegga ameríska fortíðarvinkonan Rachel, en ekki fer mikið fyrir baksögu né úrvinnslu á örlögum hennar. Sigurður kemur seint inn en spilar vel úr fyrstu endurfundunum með harmrænni þögninni í bland við lágstemmdan húmor. Katla Njálsdóttir leikur Ellu á unglingsárunum og leysir það hlutverk nokkuð vel, þá sér í lagi dramatísku augnablikin þegar þyrmir yfir ungu konuna sem fær engu stjórnað í lífi sínu. Ungling samtímans leikur Arnarldur Halldórsson sömuleiðis vel, með afslappaða nálgun að vopni.

Hökt á milli atriða

María sér einnig um leikstjórnina, eitthvað sem hún hefur sinnt áður í verkefnum leikhópsins með ágætum árangri. En í þetta skiptið hefði þurft að fá annað auga. Sýningin höktir á milli atriða og pallurinn fremst á sviðinu er afleitur, bæði hönnunin og til leiks. Of mikið er um að persónur tali út í sal, en einnig á bakvið aðrar persónur. Dramatíkin flest þannig út og senurnar virðast stundum ótengdar. Yfirhöfuð er þó listræn hönnun sýningarinnar með ágætum. Egill Ingibergsson leitar djúpt í nostalgíuna og fyllir rýmið af vísunum í áttunda áratuginn. Margrét Einarsdóttir leysir búningaskiptin almennt vel, búningur Kristbjargar er frábær, en betri lausn hefði þótt má finna á búning fortíðarföðursins, gervimaginn eru mistök.

Blessunarlega hefur margt breyst á fáeinum áratugum en ennþá er langt í land. María snertir á fjölmörgum opnum sárum en nær ekki að rífa sig frá augljósum áherslum og klisjum. Dramatísku hnútar sögunnar eru leystir of auðveldlega. Nostalgían ber líka Er ég mamma mín? næstum því ofurliði. En Kristbjörg kemur svo sannarlega til bjargar með sinni einstöku nærveru. Kvenfélagið Garpur er þess virði að fylgjast með en þarf að kafa dýpra í næsta skipti.

NIÐURSTAÐA: Kristbjörg Kjeld lýsir upp sviðið en sýninguna skortir dýpt og gegnheila umgjörð.