Svava Sigbertsdóttir er einkaþjálfari í London, fædd í Reykjavík og bjó fjölskyldan í Breiðholtinu. Eftir nokkur ár þar fluttu þau í Árbæinn. Hún er hugmyndasmiðurinn á bak við þjálfunarkerfið The Viking Method sem hefur verið að gera gríðarlega góða hluti í Bretlandi. Á dögunum kom út bók eftir Svövu um hugmyndafræðina á bak við The Viking Method. Margar af þekktustu stjörnum Breta lofa Svövu í hástert á samfélagsmiðlum og í viðtölum. Þær segja margar Svövu hafa með þjálfunaraðferðum sínum komið með það sem alltaf vantaði upp á til að ná alvöru árangi; rétta hugarfarið.

„Mamma var alltaf að reyna að styrkja mig. Ég er mjög þakklát fyrir það hvernig ég er alin upp. Maður fékk að prófa allt sem maður hafði áhuga á, en það var ekki í boði að gefast strax upp. Mamma lét okkur segja: Ég þori, ég get, ég vil.

Hún er uppalin í Árbænum, elst fjögurra systkina, bróðir hennar er rapparinn og Rottweilerhundurinn Bent, systur hennar eru sviðshöfundurinn Hildur Selma og Bertha María nemi. Þau eru öll sterkir persónuleikar og hafa náð langt á sínu sviði. Svava segir að uppeldið hafi haft mikil áhrif, móðir þeirra hafi alltaf kennt þeim að hafa mikla trú á sjálfum sér og að gefast aldrei upp.

Samviskubitið var mikið

„Mamma var alltaf að reyna að styrkja mig. Ég er mjög þakklát fyrir það hvernig ég er alin upp. Maður fékk að prófa allt sem maður hafði áhuga á, en það var ekki í boði að gefast strax upp. Mamma lét okkur segja: Ég þori, ég get, ég vil. Þú getur gert hvað sem er, ef þú ert tilbúinn leggja það sem þarf á þig. En þá verður þú að vera tilbúin að leggja þig fram, leggja hart að þér og þola margt.“

Svava eignaðist dótturina Hrafnhildi þegar hún var aðeins 17 ára gömul. Hún átti gott bakland og segist hafa verið mjög hamingjusöm með ráðahaginn, en eitthvað togaði í hana. Hana langaði í dansnám og það á Englandi. Þegar Hrafnhildur var 6 ára gömul lét hún slag standa.

„Samviskubitið var auðvitað gríðarlega mikið, en ætli það hafi ekki hert mig. Ég var í skólanum á daginn og vann svo öll kvöld. Vinkonur mínar komu stundum út að heimsækja mig og spurðu hvar væri skemmtilegast að djamma en ég hafði ekki hugmynd, ég var ýmist vinnandi, dansandi eða sofandi.“

Varð klikkfóður í Bretlandi

Breskir fjölmiðlar birtu fréttir í kjölfar útgáfu bókar Svövu, enda var mikil forvitni um þetta æfingakerfi stjarnanna þarlendis. Götupressan í Bretlandi er gjörn á að slá upp fyrirsögnum sem geta reynst ósanngjarnar eða stuðandi, til þess eins að auka sölu og flettingar. Einblíndu miðlarnir á að Svava hefði skilið dóttur sína eftir á Íslandi.

„Ég skil samt alveg svona klikkfóður. Mér fannst þó erfitt að þessu væri stillt fram á þann hátt að ég hefði bara skilið hana eftir og sótt hana svo eftir tvö ár. Ég bjó ekki einu sinni hérna úti, allar eigur mínar voru á Íslandi. Í öllum fríum fór ég heim og allar helgar sem ég gat. Ég var þá í skólanum í 6 vikur og fór svo heim.“

Á endanum ákváðu mæðgurnar í sameiningu að gera London að heimili sínu og Hrafnhildur flutti út. Svava segist þó hafa lært mikið af tímanum sem hún var ein úti og þekkti engan. Hún segir það sama eiga við um Hrafnhildi, það hafi byggt hana upp að flytja til annars lands og læra nýtt tungumál.

Eins og að eiga pabba á sjó

„Ef eitthvað er, þá styrkti þetta samband okkar, við erum mjög nánar í dag. Þetta er bara eins og að eiga pabba á sjó. Fólk myndi aldrei segja: Mikið er hann vondur maður að skilja barnið sitt svona eftir. Þetta er er algjörlega tvöfalt siðgæði og mjög hryggileg staðreynd.“

Hrafnhildur bjó hjá föðurömmu sinni sem Svava segir eina yndislegustu konu sem til er. Í upphafi hafði Hrafnhildur búið hjá pabba sínum en hann hélt svo til Bandaríkjanna að læra að verða flugmaður. Svava og barnsfaðir hennar eru góðir vinir í dag.

Bók Svövu skiptist í þrjá kafla, líkt og The Viking Method: Að hugsa eins og víkingur, að þjálfa eins og víkingur og að borða eins og víkingur. Flest þjálfunarkerfi snúast bara um hreyfingu og mataræði en Svava leggur mesta áherslu á andlega þáttinn, að hugarfarið sé rétt.

„Ég tók eftir því þegar ég byrjaði að þjálfa að það var lítil áhersla lögð á hugarfarið: Æfðu fimm sinnum í viku og borðaðu þetta! Við vitum hvað er best fyrir okkur, en svo er annað mál að koma sér í það. Mitt mottó er: Árangurinn kemur innan frá, þú verður að byrja á að styrkja andlegu hliðina. Síðan kemur hitt.“

Ekki hægt að afsaka sig

Svava heldur úti einkaþjálfun á netinu, og þar er stærsti partur kúnna hennar. „Ég fæ oft send alveg ótrúlega persónuleg bréf frá fólki sem ég er með í þjálfun. Fólki sem hefur loksins farið að vinna í sjálfu sér. Ég þjálfa fólk hvaðanæva á netinu og hef kynnst mörgum vel, ein stúlka kom meira að segja í heimsókn til mín frá Írlandi.“

Svava er líka með einkaþjálfun í London þar sem hún hittir viðskiptavini sína og fer í flestum tilvikum heim til þeirra. Með The Viking Method er ekki notast við nein líkamsræktartæki og segir Svava að þannig geti allir æft, hvar sem er. Þannig finnur fólk færri afsakanir til að gefast upp, eins og oft vill verða.

„Ég kann betur við að æfa þannig, frekar en að sitja í tæki og æfa bara hendurnar. Þá ertu að sleppa stórum parti af líkamanum. Þú ert bara sitjandi. Þú átt stanslaust að nota allan líkamann, eins og þú notar líkamann daglega. Við erum stanslaust að beygja okkur, snúa og teygja. Ég vil að fólk noti líkamann sem heild í æfingunum, í stað þess að einblína bara á einn hluta líkamans á meðan restin er í kyrrstöðu.“

Hormónar í kúamjólk

Svövu fannst mikilvægt að hafa æfingarnar einfaldar til að gefa fólki ekki jafn gott færi á að gefast upp.

„Það er alltaf hægt að finna afsökun, sumir búa of langt frá ræktinni, sem er algengt í stórborgum. Aðrir hafa ekki efni á gjöldunum. Svo er stór hópur fólks sem líður ekki vel í ræktinni, það er of meðvitað um líkama sinn,“ segir Svava og segir fólki sem finnst það of þungt líða eins og aðrir séu að horfa á það.

Í bók sinni ræðir Svava þá matarflokka sem hún telur æskilegri en aðra en eitt stingur í stúf því að flest matarplön einkaþjálfara banna mjólkurvörur alveg eða hvetja til neyslu þeirra. En Svava ráðleggur fólki að sleppa eingöngu mjólkurvörum unnum úr kúamjólk.

„Þetta hefur verið þaulrannsakað og vörur úr kúamjólk eru einfaldlega ekki góðar fyrir mannfólk. Það er svo gífurlegt magn hormóna í mjólkinni sem fer hræðilega illa í líkamann. Þetta er of mikið af hormónum fyrir okkur, svo er hún líka bólgu- og slímmyndandi.“

Svava segir að nýlegar rannsóknir bendi til að mannslíkaminn nái ekki að vinna nægilega úr því kalki og magnesíum sem við fáum úr mjólkinni.

„Það er mýta að þessi næringarefni fáist fyrst og fremst úr kúamjólk. Það er hægt að fá þau úr annarri fæðu. Annars nota ég sjálf mikið kinda- og geitaafurðir, eins og geitamjólk og kindaost. Það eru bara mjólkurafurðir kúa sem ég ráðlegg fólki að sleppa.“

Blátt bann við að vigta sig

Í þjálfunarkerfi Svövu er lagt blátt bann við því að vigta sig. Hún segir að fólk myndi óheilbrigt samband við vigtina og að stundum sé ekkert samhengi á milli þyngdar og líkamlegrar hreysti.

„Fólki er velkomið að mæla sig, en vigtin segir svo lítið um árangurinn í mörgum tilfellum. Ég hef fengið einstaklinga í þjálfun sem hafa náð miklum árangri en eru kílói þyngri en þegar þeir byrjuðu. Það gerir engum gott að stíga á vigtina á hverjum morgni og festa sig í einhverjum tölum.“

Hún segir óþolinmæði þjaka marga, fólk vilji sjá árangur strax og ef hann láti á sér standa, þá gefist það upp.

„Ég reyni að útskýra fyrir því að það fitni ekki á einum mánuði og það er sannarlega ekki að fara að missa það allt á mánuði. Þetta tekur tíma og það mikilvægasta er hugarfarið. Ef það er á réttum stað, þá ertu kominn hálfa leið.“

Þjálfar Nicole Scherzinger

Svava fór að þjálfa eftir að dansnáminu lauk. Hún var byrjuð að þróa hugmyndafræðina á bak við The Viking Method, með megináherslu á hreyfingu og mataræði. Ferlið hafi svo kennt enn frekar hvað andlega hliðin skipti miklu.

„Þetta var erfitt fyrst. Ég var ein úti með Hrafnhildi, vann á daginn og var með henni á kvöldin. Því var eini tíminn til að vinna í þróun The Viking Method á næturnar. Maður þarf bara mikla elju, trú á sjálfan sig og þor til að fara út í svona. Það hefði verið svo auðvelt að gefast upp.“

Í upphafi hafi hún rekist á marga veggi og fengið neitanir víða. Það hafi þó allt átt sinn þátt í að þróa æfingakerfið. Hún hafi víða komið að lokuðum dyrum þar til að hún fékk loksins já, frá söngkonunni og þáttastjórnandanum Nicole Scherzinger. Þá fór boltinn að rúlla.

„Ég frétti að hún væri að flytja til London og datt í hug að hana myndi vanta einkaþjálfara í London. Þannig að ég sendi henni tölvupóst, hún svaraði og nokkrum dögum seinna var ég byrjuð að þjálfa hana. Ég þjálfaði hana meðan hún var í X-Factor og geri það í hvert sinn sem hún kemur til Bretlands, en hún er mikill aðdáandi aðferðafræðinnar á bakvið The Viking Method.“

Matur gerður af póníhestum

Svava segir fólk mikla það fyrir sér hvernig hægt sé að lifa heilbrigðum lífsstíl. Glansmyndir á samfélagsmiðlum eigi oft stóran þátt í því.

„Núna er allir eru stanslaust að setja allt á samfélagsmiðla, mér finnst þetta gera fólki erfiðara fyrir. Það snýst allt um hvernig maturinn lítur út, en ekki hvernig hann nærir þig. Fólk er að eyða meiri tíma í að raða fínt upp og skera banana í stjörnur en að velta fyrir sér hvað það er að láta ofan í sig. En ef þú sérð einfaldan mat sem er bara skellt á pönnu og lítur ekki út fyrir að póníhestar hafi búið hann til, þá sér fólk að þetta er ekki mikið mál.“

Fáðu þér köku!

Henni finnst hugarfarið í kringum svokallaða svindldaga orsaka það að fólk fái neikvæða sýn á allan þann góða mat sem er okkur hollur.

„Eitt sem mér finnst einmitt áberandi eru þessir svindldagar og svindlmáltíðir. Þetta lætur fólki líða eins og það þurfi að pína í sig hollan mat þvert gegn eigin vilja, og geti verðlaunað sig loks á sunnudegi með óhollustu. Þú ert fullorðin manneskja og þekkir þinn líkama. Ef þig langar í köku á miðvikudegi, fáðu þér þá köku.“

Svövu finnst fólk í hennar geira eiga frekar að reyna að sýna að það sé hægt að ná árangri á einfaldan hátt, það eigi ekki að taka mikinn tíma að næra sig. Hún segist hafa tekið eftir því hve óheilbrigt samband margir eigi við mat.

Matur er ekki vinur þinn

„Matur er í raun bara bensín fyrir líkamann. Matur á ekki að vera vinur þinn þegar þér líður illa eða þegar þú ert að fagna. Fólk fer að mynda alltof mikil tilfinningaleg tengsl við mat. Stundum heyrir maður fólk ræða saman út undan sér og það eina sem það talar um er bara hvað það borðar allan daginn.“

Svava er bjartsýn á framtíðina og ánægð með nýju bókina.

„The Viking Method snýst um ábyrgð á eigin lífi, hvort sem kemur að mataræði, hreyfingu eða einfaldlega því að standa með sjálfum sér. En það mikilvægasta verður alltaf að gefast aldrei upp.“ Bókin hennar Svövu fæst í Eymundsson um allt land og á amazon.co.uk.