Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og fyrrverandi formaður FKA og Samtaka verslunar og þjónustu, hefur komið nálægt verslunarrekstri nær alla sína ævi. Afi hennar, Magnús Þorgeirsson, stofnaði verslunina árið 1929 og síðan þá hefur hún verið í eigu fjölskyldunnar.

Margt hefur breyst í verslunarrekstri á þessari tæpu öld, til dæmis þegar kemur að útsölum, en þær tíðkuðust ekki í tíð afa hennar og voru mjög sjaldgæfar um það leyti sem faðir Margrétar, Kristmann Magnússon, tók við árið 1963.

„Ég var að rifja þetta upp með pabba gamla að þegar afi rak fyrirtækið voru aldrei útsölur. Þegar pabbi er tekinn við voru útsölur fátíðar enda útsölur eingöngu leyfðar einu sinni á ári, sem flestum þætti furðulegt að búa við í dag.

Það var því helst að langar biðraðir mynduðust þegar vörur komu sem lengi höfðu verið ófáanlegar í landinu, enda hafði verið kreppu- og haftatími áratugum saman hér á landi.“

Útsölur hafa breyst

Í dag ríkir öllu meira frjálsræði þegar kemur að útsölum en í tíð afa hennar og föður, þótt flestar verslanir haldi þær í janúar og í sumarlok.

„Við sjáum þessar hefðbundnu útsölur enn í byrjun janúar og síðan á sumrin, ekki síst í fatageiranum, þegar losa þarf út sumarfatnaðinn. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að sumar verslanir misnoti „útsöluhugtakið“ þegar „útsölur“ eru haldnar með nokkurra vikna fresti.

Það eru svona-dagar og hinsegin-dagar allt árið um kring. Í mínum huga eiga útsölur fyrst og fremst að vera tæki og tól til að losa út eitthvað sem mætti kalla vandræðalager. Hins vegar er stóra byltingin hvað útsölur varðar kannski stóru afsláttardagarnir í nóvember, til dæmis Svartur föstudagur, sem hafa sprungið út undanfarin ár, eitthvað sem varla þekktist hér fyrir nokkrum árum.“

Byrjaði ung

Margrét tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá fjölskyldufyrirtækinu árið 1991 og er því af þriðju kynslóð fjölskyldunnar sem kemur að fyrirtækinu.

„Þegar ég var að alast upp voru margir fjölskyldumeðlimir að vinna hjá Pfaff; afi, foreldrar mínir, bróðir, frænkur og fleiri. Í æsku var ég því oft á vinnustaðnum og einhvern veginn var litið á starfsfólkið sem hluta af stórfjölskyldunni. Kannski hefur það mótað mig mest að ég fann það strax mjög ung að Pfaff var bara fólkið sem vann þar.“

Erfiðir dagar en skemmtilegir

Aðspurð hvort hún eigi einhverjar skemmtilegar minningar frá útsölum fyrri tíma segist hún aðallega muna eftir starfsfólkinu.

„Það er helst að ég hafi dáðst að starfsfólki fyrirtækisins í kringum stærstu útsöludagana, þá einkum í kringum stór afmælisár fyrirtækisins. Þá var starfsfólkið á þönum frá morgni til kvölds og það var varla sest niður til að borða. Þegar loks var skellt í lás sátu allir uppgefnir en einhvern veginn með bros á vör. Því þó svona dagar séu erfiðir eru þeir líka skemmtilegir, þegar allt er hreinlega vitlaust að gera.“