Chris Rock sagði brandara í gær á Óskars­verð­launa­há­tíðinni um Jada Pin­kett Smith sem virðist hafa farið illa ofan í eigin­mann hennar, Will Smith.

Brandarinn snerist um hár­greiðslu leik­konunnar, sem er snoðuð. Chris var að af­henda verð­launin fyrir bestu heimildar­myndina þegar at­vikið átti sér stað.

„Jada, ég elska þig, G.I. Jane 2 ég get ekki beðið eftir því að sjá hana,“ sagði Chris og gerði grín að hár­greiðslunni hennar. „Þessi var góður,“ sagði hann svo þegar ljóst var að brandarinn féll ekki í kramið meðal á­horf­enda.

Jada Pin­kett Smith hefur verið opin­ská um bar­áttu sína gegn sjálf­sof­næmis­sjúk­dómi sem hún hefur og hefur orðið þess valdandi að hún hefur misst hár sitt. Að því er CNN full­yrðir mátti heyra Will Smith slá Chris Rock í salnum.

„Haltu nafni konunnar minnar frá þessu,“ sagði Will Smith við hann en blóts­yrði leikarans voru falin í beinni út­sendingu. Dauða­þögn sló þá á salinn.

„Þetta var besta kvöldið í sögu sjón­varpsins,“ sagði Rock þá í kjöl­farið. Sean „Did­dy“ Combs gekk þá upp á svið og sagði þá myndu leysa úr málunum eins og fjöl­skylda síðar.

40 mínútum síðar gekk Will Smith upp á svið og tók við Óskars­verð­launum fyrir aðal­hlut­verkið í King Richard, þar sem hann fer með hlut­verk föður Venus og Serenu Willi­ams. Hann baðst af­sökunar á fyrr­nefndu at­viki en minntist ekki á Chris Rock.