Ebba kom fram í sjónvarpsþættinum Matur og heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut á dögunum og eldaði sína uppáhalds súpu sem hefur fylgt henni í langan tíma.

Þegar Ebba er spurð út í matarhefðir fjölskyldunnar er svarið einfalt.

„Ég reyni að hafa matinn hollan, hreinan, bragðgóðan og einfaldan. Mér líður sjálfri best af þannig mat og það er einfaldast að búa hann til, svo þetta er vinn, vinn, ef ég má sletta á íslensku.“

Ebba er á því að líklegast teljist þeirra mataræði svolítið Miðjarðarhafslegt.

„En með árunum og meiri vitneskju og visku er ég búin að átta mig á að best er að borða fjölbreytt, svo lengi sem maður þolir matinn. Af því að fjölbreytt matvæli gefa okkur fjölbreytta næringu. Þannig að ég reyni að hafa fjölbreytni á borðum, en um leið einfalt, hollt og hreint. Ég les alltaf innihaldslýsingar, kaupi mikið lífrænt og ég hendi engu.“

Dreymir um ruslatunnu fyrir matarafgangana

Ebbu blöskrar matarsóunin sem virðist eiga sér stað á mörgum íslenskum heimilum og er mikið í mun að nýta allt hráefni vel.

„Ég er mikil áhugamanneskja um matarsóun. Meðal fjölskylda hendir sem samsvarar um 150 þúsund krónum í ruslið ár hvert. Það er alveg skelfilegt.

Margt skemmtilegt hægt að gera fyrir þann pening. Fyrir utan að þessir matarafgangar enda í plastpokum sem er ekki gott fyrir umhverfið og andrúmsloftið. Ég man þegar ég heimsótti vinkonu mína í Lundi, Svíþjóð fyrir um þrettán árum, þá var sér ruslatunna fyrir matarafganga. Mig dreymir um að það verði hér í Reykjavík þar sem ég held að margir treysti sér ekki í moltugerð.“

Linsubaunir í stað kjöts

Þegar kemur að því að laga mat fyrir heimilið er hún því dugleg að nýta það sem til er að hverju sinni og segir að gera matarmiklar súpur séu oft góð leið til að nýta meðal annars afganga að grænmetinu í ísskápnum.

„Linsubaunasúpansem ég gerði í þættinum er í miklu uppáhaldi. Hún er einföld, fljótleg, ódýr og ljúffeng. Svo er snjallt að nota stundum linsubaunir í staðinn fyrir kjöt. Mér finnst æði að hafa grænmetissúpu um það bil tvisvar í viku og þá nota ég yfirleitt alltaf linsubaunir, rauðar, grænar eða brúnar. Það tekur 20 mínútur að sjóða rauðu sem er mikill kostur en yfirleitt um 40 mínútur að sjóða hinar.“

Ebba mælir líka með heimabökuðu brauði með súpunni.

„Okkur finnst æði að setja ólífuolíu og smá salt á brauðið með súpunni. Og það er frábært að blanda saman próteini úr linsum og úr grófu korni, sú samsetning býr til fullkomið prótein fyrir okkur. Ég borða orðið mikið glúteinlaust og þær uppskriftir eru líka á síðunni. Ég nota og blanda saman á víxl bókhveitimjöli, quinoamjöli, möndlumjöli og Keto brauðblöndunni frá Kaju er ég baka glúteinlausar bollur, hrökkkex og pítsur fyrir mig. “

Linsubaunasúpan hennar Ebbu lítur vel út.

Uppáhalds linsubaunasúpan

200 ml vatn

1 stk. laukur (má nota blaðlauk)

2 msk. paprikukrydd (mér finnst best að blanda saman sterkri og sætri – þær fást lífrænar)

2 stk. lárviðarlauf

2 stk. hvítlauksrif (pressuð og ég set oft meira)

2 dl rauðar linsubaunir

1 rauð/gul paprika (ég sleppi henni á veturna þegar ekki er til íslensk)

½-1 sæt kartafla (fer eftir stærð)

1/2-1 kúrbítur

1 lítill brokkolíhaus (má sleppa og nota eitthvað annað)

400 ml niðursoðnir tómatar eða tómatar í krukku (passata)

500 ml vatn

400 ml kókosmjólk (aukaefnalaus)

2 teningar af lífrænum grænmetisteningum

Himalayasalt og svartur pipar eftir smekk.

Ég byrja á því að setja vatnið í pott, kveiki undir og sker niður laukinn og hendi í pottinn ásamt kryddi og hvítlauk. Því næst skola ég linsurnar vel í sigti og skelli þeim út í pottinn og hræri vel. Svo held ég ótrauð áfram og þvæ grænmetið, afhýði ef þarf, sker í munnbita og hendi í pottinn jafnóðum. Að lokum bæti ég við tómötum, meira vatni og kókosmjólk og læt malla í um 20-30 mínútur. Salta og pipra, smakka til og ber fram með góðu brauði að eigin vali.

Á Instagramsíðu Ebbu, @Pureebba, eru að finna uppskriftir að ostabollum og pönnubrauði sem og í öllum bókunum hennar. Alls konar einfalt.