Réttir eins og paella eða tapas hafa fylgt mannkyninu í spænskumælandi löndum lengi. Paella á uppruna sinn í Valencia-héraði á Spáni og er sagður hafa komið þangað með márum sem voru að uppruna berbar eða hirðingjar frá Vestur- og Norður-Afríku. Það var síðan á tímum Franco sem paellan varð þjóðartákn en það mun vera vegna þess að þetta var uppáhaldsréttur einræðisherrans. Franco sameinaði ýmsa siði einstakra héraða á Spáni og setti þá undir einn hatt, þar á meðal er flamenco-dansinn sem er ættaður frá Andalúsíu.

Paellan er orðin klassík og flestir sem koma til Spánar smakka á þessum þjóðarrétti. Hann er gerður á mismunandi hátt þótt alltaf séu notuð hrísgrjón ekki ólík þeim sem notuð eru í risotto á Ítalíu. Paella er alltaf löguð fyrir nokkra í einu enda elduð á stórri pönnu sem rétturinn ber nafn sitt af. Það er mjög skemmtilegt að bjóða gestum upp á heimagerða paellu og hér er uppskrift sem inniheldur spænska chorizo pylsu, smokkfisk og bláskel. Oft er kjúklingur í uppskriftunum með sjávarfangi, allt eftir smekk hvers og eins. Paella er gjarnan borin fram með hvítlauksmajónesi og brauði.

Paella

fyrir fjóra

500 g paella-hrísgrjón

1-2 kg bláskel

2 dl hvítvín

200 g chorizo-pylsur

2 tómatar

1 laukur, smátt skorinn

4 hvítlauksrif

1,5 l kjúklinga- eða sjávarréttasoð

0,5 tsk. saffran

1 tsk. paprikuduft

2 dl grænar baunir, ferskar

1 paprika, grilluð og húðin fjarlægð ásamt kjarna

200 g smokkfiskur skorinn í skífur (má sleppa)

1 sítróna

Fersk steinselja, smátt skorin

Ólífuolía

Salt og nýmalaður pipar

Skolið bláskelina undir köldu rennandi vatni og fjarlægið það sem er kallað „skegg“. Hendið þeim skeljum sem virðast skaddaðar. Setjið í stóran pott ásamt hvítvíni. Leggið lok á pottinn og látið sjóða í 5 mínútur eða þangað til skelin opnast. Hendið þeim sem ekki opnast. Sigtið soðið frá og geymið. Losið kjötið úr skelinni en skiljið nokkrar eftir til skrauts.

Skerið chorizo í bita, takið kjarnann úr tómötunum og grófhakkið þá.

Hitið olíu á víðri pönnu, best að nota paella-pönnu. Bætið við lauk og hvítlauk og steikið smástund. Hrærið á meðan. Bætið helmingnum af pylsubitunum út í, saffran og paprikuduftinu. Látið malla smá stund og hrærið.

Setjið tómatana út á pönnuna ásamt hrísgrjónum og hrærið allt saman í nokkrar mínútur. Þá er krafturinn af bláskelinni settur út í og 1/3 af kjúklingakraftinum. Hrærið og látið suðuna koma upp. Bætið krafti eftir þörfum og látið hrísgrjónin malla rólega í 15-18 mínútur. Hrærið af og til. Saltið ef með þarf.

Þá er bláskelin sett saman við ásamt baunum og papriku. Bætið við kjúklingakrafti eftir þörfum. Hitið upp aðra pönnu og setjið ólífuolíu á hana. Steikið afganginn af pylsubitunum á meðalhita. Bætið smokkfiskinum á pönnuna og kryddið með salti og pipar.

Þegar paellan er borin fram er skreytt með bláskel, smokkfisk og chorizo ásamt olíunni sem þetta var steikt upp úr. Dreifið sítrónusafa yfir, steinselju og nýmöluðum pipar.

Hvítlauksrækjur eru tapasréttur sem flestir fá sér þegar Spánn er heimsóttur.

Hvítlauksrækjur með chilli

fyrir fjóra

500 g rækjur

2 dl ólífuolía, mild

7 hvítlauksrif

2 tsk. þurrkaðar chilliflögur

4 msk. blaðsteinselja, söxuð

Bragðmiklar rækjur með miklum hvítlauk eru hluti af spænska tapas- hlaðborðinu.

Skerið hvítlaukinn í þunnar sneiðar. Blandið olíu, hvítlauk og chilli á litla steikarpönnu. Hitið upp yfir meðalhita þar sem hvítlaukurinn fer að taka á sig lit. Lækkið hitann og setjið rækjurnar út í og steikið í örlitla stund. Berið strax fram vel heitt. Dreifið steinselju yfir og berið fram með góðu brauði.