Unnur Eggerts, leikkona, mun leika Jayne Mansfield í nýjum söngleik um Marilyn Monroe, sem setja á upp í Las Vegas í Bandaríkjunum. Unnið hefur verið að sýningunni síðustu tvö árin. 

„Ég hef unnið að þessari sýningu, samhliða öðrum verkefnum, síðustu tvö árin. Ég byrjaði sem dansari og hef unnið mig upp í hlutverk Jayne Mansfield. Sem Jayne syng ég eitt lag í sýningunni, auk þess sem ég dansa að sjálfsögðu allan tímann,“ segir Unnur í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Unnur segist mjög spennt fyrir þessu verkefni. „Söngleikurinn er búinn að vera í þróun í tvö ár. Við höfum verið að sýna áhugaverðum fjárfestum úr honum í bæði bæði Las Vegas og Los Angeles. Þá höfum við tekið einstaka lög eða atriði. En nú verða fastar sýningar, sex sinnum í viku, í 1.500 manna leikhúsi í Las Vegar.“

Söngleikurinn er forsýndur 23. maí og svo stendur til að frumsýna 1. júní, á afmælisdegi Marilyn Monroe.

Unnur segir að samband Marilyn og Jayne hafi verið málað upp allt annað í fjölmiðlum, á sínum tíma, en það í raun var. „Það var málað upp þannig í fjölmiðlum að þær ættu í erjum. Þær voru líkar í útliti, báðar ljóshærðar, kynþokkafullar leikkonur, að leika á sama tíma. En þannig var það ekki á milli þeirra. Það var mjög mikil gagnkvæm virðing.“

Raunsæ mynd af Marilyn

Unnur segir sýningin draga upp raunsæja mynd af Marilyn, sem fólk hefur ekki endilega séð áður.

„Marilyn var einn rosalegasti femínisti síns tíma. Fólk kannski veit það ekki. Það er það sem mér finnst æðislegast við sýninguna. Það er reynt að draga upp aðra mynd af henni en þessi týpíska. Sem er að hún hafi aðeins verið „heims ljóska“. Hún átti erfitt líf. Hún ólst upp á munaðarleysingjaheimili og var neydd til að giftast 16 ára. Hún og var í ofbeldisfullum samböndum, auk þess sem hún átti við geðræn vandamál að stríða. Þegar hún var sem frægust, var hún sem þunglyndust. Samt var hún að leika stórkostleg hlutverk og stofnaði fyrsta framleiðslu fyrirtækið í Hollywood sem var í eigu konu Við förum yfir þetta allt í sýningunni og gerum Marilyn þannig góð skil.“

Unnur segir að skrítið verði að flytja til Las Vegas, í eyðimörkina. En segir að leikhúsmenning sé mikil í borginni og því sé þetta góður staður til að vera á fyrir hana. Hún segir mörg tækifæri í boði. Hún mun vera búsett í Las Vegas næstu sex mánuðina á meðan sýningum stendur, en segir að hún muni reglulega fljúga til Los Angeles í prufur og annað.

Í fjölskyldusýningu í Hörpu í haust

Unnur segist alltaf hafa annað augað opið fyrir verkefnum hér á Íslandi og er spennt fyrir því að leika meira hér. Í haust hyggst hún, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, setja upp fjölskyldusýninguna Maximus Musicus í Hörpu.

Áður hefur hún tekið þátt í uppsetningu sýningarinnar ásamt sinfóníuhljómsveitinni í Los Angeles. Þar var um að ræða nýja útfærslu þar sem hún lék nokkurs konar álfaprinsessu frá Íslandi. Stefnt er á að setja upp sýninguna með svipuðu sniði hér heima í haust.

Unnur útskrifaðist frá The American Academy of Dramatic Arts í New York árið 2016. Hún fékk aðalverðlaun útskriftarinnar sem besta leikkona árgangsins. Í árganginum voru um 100 nemendur. 

Hér, á blogginu hennar, er svo hægt að fylgjast með Unni og ævintýrum hennar í Bandaríkjunum.

Unnur tilkynnti þetta allt á Instrgram fyrr í vikunni, eins og má sjá á færslunni hér að neðan. 

Athugasemdir