Ungir Píratar hafa lýst miklum vonbrigðum með „viðbrögð skólayfirvalda í þeim skólum sem hafa valið það að gefa börnum og unglingum pizzur í stað þess að hvetja þau til lýðræðisþátttöku og gagnrýninnar hugsunar“, eins og þeir orða það.

Hjalti Björn Hrafnkelsson, gjaldkeri Ungra Pírata, segir þeim hafa borist fregnir af því að í einhverjum skólum hafi verið reynt að letja krakkana. „Bæði með því að segja þeim að þetta muni ekki breyta neinu og skipti engu máli. Og síðan fréttist af því að skólastjórnendur hefðu eitthvað verið að gefa krökkum pizzur í hádeginu gegn því að mæta ekki í mótmælin og taka þátt í loftslagsverkföllunum.“

Hjalti Björn furðar sig mjög á þessu og telur meðal annars augljóst að fái þetta staðist hafi viðkomandi skólastjórnendur farið þvert gegn menntastefnu Reykjavíkurborgar og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Þar er skýrt talað um rétt barna til þess að koma saman, mótmæla og taka pólitíska afstöðu,“ segir Hjalti Björn við Fréttablaðið.

„Persónulega finnst mér þetta stórfurðulegt þar sem ég tel náttúrlega að í lýðræðisríki, sem við erum nú, ætti grunnforsenda skólastarfs að vera að börn fræðist um lýðræðið. Þetta er ekkert annað en óhefðbundin pólitísk þátttaka í lýðræðinu, að taka þátt í mótmælum og verkföllum.“

Hjalti Björn segir Unga Pírata hafa ákveðið að bregðast við með því að gefa mótmælendum pizzur á meðan birgðir endast, milli klukkan 12 og 13, í mótmælum dagsins á Austurvelli.

Umhverfisvænar flatbökur

„Við ætlum að gefa pizzur aðallega til að undirstrika hversu fáránlegt þetta er en síðan er líka bara gaman að gefa fólki mat. Með þessu viljum við líka lýsa yfir stuðningi við loftslagsverkfall LÍS, SÍF og Ungra umhverfissinna og hvetjum jafnframt skólana til þess að endurskoða afstöðu sína.“

Pizzurnar sem Píratarnir bjóða upp á eru vitaskuld vegan og grænmetis í takt við tilefni mótmælanna. „Þriðjungur af pizzunum sem verða í boði er vegan og restin er grænmetispizzur,“ segir Hjalti Björn. „Og ef fólk langar í ost þá fær hann að vera með í þetta skipti. Mjólkurosturinn sleppur grænmetismegin en það er ekkert kjötálegg.“

Hjalti Björn segir aðspurður að Píratarnir sjái sér ekki fært að baka pizzurnar sjálfir. Í það minnsta ekki að þessu sinni. „Nei, við pöntum þær í þetta skipti. Það hefði nú verið gaman að baka þær sjálf en við sáum ekki fram á að við gætum það, en við skellum kannski svuntunum bara á okkur næst. Það er aldrei að vita.“

Kraftmiklir krakkar

Hjalti Björn segir mikla þátttöku unga fólksins í loftslagsverkfallinu fyrir viku sýna að æska landsins sé full af orku sem glæði vonina um bjartari framtíð. „Ég vinn í félagsmiðstöð þar sem við erum meðal annars að virkja krakkana til gagnrýninnar hugsunar og þátttöku í stjórnmálum og það er bara rosalega skemmtilegt að sjá allan þennan áhuga sem er að vakna hjá þeim. Það er líka bara svo gaman að sjá alla þessa krakka sem láta sig þetta ótrúlega mikilvæga mál varða og ég vona bara að þau verði enn fleiri í dag en síðast.“

Hjalti Björn segir einnig ánægjulega áberandi hversu duglegir krakkarnir eru að kynna sér málin og leggja mikið á sig til þess að afla sér upplýsinga sjálf. „Það er náttúrlega grunnstefna hjá okkur Pírötum að fólk beiti gagnrýnni hugsun, að það hafi aðgang að upplýsingum og nýti sér þær.

Þetta er rosalega valdeflandi og mér finnst bara mjög leiðinlegt að sjá að einhverjir skólastjórnendur taki þessu ekki fagnandi. Þannig að við vonum að þessi aðgerð okkar veki einhverja athygli og fái fólk aðeins til að hugsa um hversu sorglegt það er ef skólar eru að múta börnum með pizzum til þess að taka ekki virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi.“