Þau Jónína Þórdís Karlsdóttir og Viktor Karl Einarsson eru ungir frumkvöðlar sem reka fyrirtækið BÖKK. Fyrst um sinn framleiddi það belti en nýlega bættust peysur og bolir við. Nú fyrir helgi tilkynntu þau svo línu af húfum, en hún er unnin í samstarfi við Rúrik Gíslason fótboltamann, sem er nýjasta viðbótin í eigendahópinn.

Minna á flugvélabelti

„Bökk byrjaði sem verkefni í Verzló í frumkvöðlafræðiáfanga. Í áfanganum áttu nemendur að búa til sín eigin fyrirtæki ásamt öllu því sem því fylgir, þá kviknaði hugmyndin að BÖKK. Við ákváðum að búa til nýstárleg hátískubelti en beltin eru svolítið öðruvísi og framandi. Sylgjan á beltunum er svipuð þeirri og sjá má á flugvélabeltum og efnið sem við notuðum í ólar beltanna er sams konar efni og notað er í hefðbundnar sætisbeltaólar. Fyrsta línan okkar gekk vonum framar og seldist upp á innan við tveimur sólarhringum,“ segir Jónína Þórdís.

BÖKK tók síðan þátt í frumkvöðlafræðikeppni Junior Achievements, en 120 önnur fyrirtæki tóku þátt í henni. Þetta ár var keppnin sérstaklega stór, þar sem tveir árgangar voru á útskriftarárinu sínu sem tóku þátt í þessum áfanga, sökum styttingu menntaskólanna. BÖKK stóð að lokum uppi sem sigurvegari keppninnar.

Rúrik í fötum frá BÖKK, en hann bættist nýlega í eigendahópinn og tekur þátt í hönnuninni með Jónínu og Viktori. MYND/JÓNÍNA ÞÓRDÍS

,,Við fórum í kjölfarið til Serbíu í Evrópukeppni. Eftir keppnina fórum við að huga að framtíðinni og Viktor Karl Einarsson kom inn í fyrirtækið sem eigandi og frábær starfskraftur. Í sameiningu fórum við að vinna að nýrri línu. BÖKK hefur nú alls gefið út fjórar línur en við vorum ákaflega lánsöm að fá nýjan eiganda inn í fyrirtækið fyrir síðustu línu, fótboltamanninn Rúrik Gíslason,“ segir Jónína

Klassískt tískumerki

,,Í síðustu línunni okkar, sem kom út rétt fyrir jól buðum við upp á belti, peysur, boli og svo vorum við að bæta við húfum. Hugmyndin að nýju línunni var að gera föt sem henta öllum. Okkur fannst vanta á markaðinn klassískt íslenskt tískumerki,“ segir Viktor.

Þau segjast hafa unnið þrjú saman að línunni frá því í júní. Þau hafi viljað taka sér góðan tíma í hönnunina og val á efnum.

,,Öll BÖKK línan er unisex, sem merkir að hún hentar bæði körlum sem konum. Það er einstaklega gott að fá Rúrik inn í teymið þar sem, eins og flestir Íslendingar vita, hann hefur mjög gott auga fyrir tísku og nýjustu straumunum. Hann passar upp á hvert einasta smáatriði og á stóran þátt í hönnun línunnar,“ segir Viktor.

Húfurnar rokseljast

,,Rúrik leist mjög vel á það sem við vorum að gera og þetta var í anda þess sem hann fílar. Ég fór til Þýskalands að hitta hann, en við erum frændur. Við gáfum honum bol sem honum leist svo ótrúlega vel á. Eitt leiddi af öðru og ekki leið á löngu þar til við vorum byrjuð að huga að næstu línu, en Rúrik passar mjög vel inn í teymið,” segir Viktor.

,,Salan á línunni gengur alveg ótrúlega vel. Við höfum vart undan. Sérstaklega eftir að Rúrik opinberaði samstarfið, hann á náttúrulega svo marga aðdáendur,“ segir Jónína hlæjandi.

Nýju húfurnar og aðrar vörur frá BÖKK er hægt að nálgast á bokk.is.