Kvikmyndir

Fullir vasar

★★

Leikstjóri: Anton Sigurðsson

Aðalhlutverk: Hjálmar Örn Jóhannsson,  Aron Már Ólafsson, Nökkvi Fjalar Orrason, Egill Ploder

Það fyrsta sem maður heyrði um Fulla vasa var að nokkrir vinsælir „snapparar“ væru að gera glæpamynd. Sá einhvern veginn fyrir mér mátulega grunna en grobbna gaura taka upp senur á símana sína sem þeir ætluðu síðan að klastra saman í mjög langt svona „history“ á Snapchat og reyna að kalla símagrínið kvikmynd.

Eftir því sem gamalmenni eins og ég kemst næst snúast „snöpp“ um að vera voða sniðugur á tíu sekúndum og um leið og búið er að horfa á „snappið“ sé það horfið að eilífu. Amen. Þá gefur maður sér náttúrlega að athyglisgáfa svona „sanppara“ sé einmitt um það bil tíu sekúndur og því séu þeir ekki til stóræðanna utan þessa smáforrits.

Fullir vasar kemur að því leyti ánægjulega á óvart. Hún fer vel af stað. Sprikklandi fjörug og bara ansi vel tekin og merkilega fagmannalega frágengin. Þetta ekki  símamyndin sem fordómafulli, miðaldra karlinn hafði ákveðið fyrirfram.

Sagan er í grunninn sáraeinföld. Arnar Thor er ansi kunnugleg manngerð. Hinn dæmigerði, drjúgi, tungulipri, íslenski athafnamaður og lukkuriddari. Alltaf með stórkostleg plön í gangi, alveg við það að „meikaða“ og græða „böns af monní.“ En er að sjálfsögðu bara greindarskertur apaheili með snert af siðblindu.

Sennilega hefur þessari óþolandi og því miður allt of raunverulegu og algengu staðalímynd ekki verið gerð betri skil en í Íslenska draumnum, eftir Róbert Douglas, og Fullir vasar eru stundum eins og bergmál þeirrar ágætu myndar.

Viðskiptabröltið á Arnari kallast nánast í rauntíma á við samtímann og kunnugleg fréttamál. Þegar Arnar húrrar á hausinn situr hann uppi með tugmilljónaskuld við hættulegasta orkurlánara og glæpakóng landsins. Í félagi við yngri bróður sinn og tvo vini ákveður hann að ræna banka og skera sig úr snörunni hratt og örugglega.

Hjálmar Örn Jóhannson hefur lengi djókað með sketsum og flippi á netinu, í útvarpi og víðar. Hann gerir Arnar Þór, sem breytti nafni sínu í Thor vegna sjúklegarar dýrkunnar á fyrimynd sinni, Björgólfi Thor, að bráðskemmtilegum aula. Hann er burðarbiti myndarinnar og lengst af hvílir hún bara helvíti vel á herðum hans. Hjálmari er greinilega eðlislægt að vera fyndin og voða innilegur þannig að hann gerir í raun meira úr hlutverkinu en það býður uppá. Virkilega vel gert.

Aron Már Ólafsson, Nökkvi Fjalar Orrason og Egill Ploder leika strákagreyin sem sýna Arnari allt of mikla tryggð og þolinmæði. Persónur þeirra eru ólíkar en allir standa þeir sig prýðilega. Sjarmerandi strákar sem eiga greinilega eftir að láta meira að sér kveða. Aron Már stendur uppúr sem „hættulegasti glæpamaður Íslands“, eða ekki. Dansar á milli harðhaussins og brothætta litla stráksins ansi hreint vel

Snapáhrifin svífa því miður aðeins of mikið yfir vötnum. Fyndnar senur poppa upp, fjara út og tengjast ekki heildarmyndinni. Oft fínir brandarar sem hefur verið of freistandi að hafa með þótt þeir skekki heildarmyndina. Og þótt sagan sé einföld þá teygist lopinn full mikið í seinni hálfleik. Eins og leikstjórinn missi þráðinn sem hlykkjast í allar áttir þannig að myndin virkar lengri en hún er í raun.

Tilraunir til þess að stæla frásagnarmáta Tarantinos í Reservoir Dogs og Pulp Fiction eru vandræðalega augljósar og kannski ekki alveg málið fyrir reynslulítinn leikstjóra að fikta við slíkt. Handritinu hefði heldur ekki veitt af því að reyndur yfirlesari hefði kennt höfundinum að beita slípirokknum á verk sitt áður en tökur hófust.

Fullir vasar er alger strákamynd og þótt margt sé vel gert og sniðugt yfirgnæfa karlalæti ungra manna það með bílahasar, byssuleikjum og töffarastælum. Þá er skorturinn á kvenpersónum frekar óþægilegur og þær fáu konur sem fá að vera memm eru allt of staðlaðar fyrir krimma sem gerist á vorum tímum.

Myndin er dálítið bernskt byrjendaverk sem sýnir þó svo ekki verður um villst að þarna eru samankomnir hæfileikamenn sem eiga eftir að slípast, eldast og þroskast. Fjórmenningarnir mega engu að síður vel við una og þeir halda sínu vel í atriðum á móti þungavigtarleikurum sem virðast skemmta sér hið besta í myndinni.

Helga Braga Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Jörundur Ragnarsson afgreiða sitt grín að hætti hússins og Laddi og Hilmir Snær Guðnason fara skemmtilega yfir strikið íýktum ofleik á glæpafeðgunum sem Arnar Thor skuldar peninginn sem keyrir söguna áfram.