Mamma Stulla kenndi mér á básúnu, auk þess var ég meðlimur í lúðrasveitinni og léttsveitinni í tónlistarskólanum sem hún einmitt stjórnaði. Stulli spilaði á horn í lúðrasveitinni og mig minnir að hann hafi líka spilað á barítón saxófón í léttsveitinni. Þannig að við erum búnir að þekkjast lengi,” segir Valdimar Guðmundsson, tónlistarmaður og bjóráhugamaður. Hann og Sturlaugur Jón Björnsson, eða Stulli, bruggmeistari Borgar, eru báðir úr Keflavík og segir Valdimar að móðir Stulla hafi verið sér sem önnur móðir á tímabili.

Valdimar er þó ekki hinn venjulegi bjóráhugamaður því hann hefur nú setið og hugsað um sinn eigin bjór – sem hann ætlaði að frumsýna á stórtónleikum hljómsveitarinnar í tilefni af ára-tugarafmæli hennar. Það eru jú tíu ár síðan Undraland kom út sem er ekkert minna en frábær plata. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og plöturnar orðnar fjórar. Eins og með flest annað hefur tónleikunum verið frestað til 12. september.

„Við vorum mjög ánægðir með að Borg skyldi vera til í að fagna afmælinu með okkur og erum mjög ánægðir með útkomuna, því þetta er frábær bjór,“ bætir hann við.

Undraland er flokkaður sem svokallaður Kveik IPA sem er samsuða af tveimur bjórstílum. IPA eða India Pale Ale er trúlega eitthvað sem flestir Íslendingar kannast orðið vel við.

Sturlaugur segir að sá stíll eigi alla jafna við um flest mikið humlað öl. Kveik er þó öllu minna þekktur bjórstíll hér á landi. „Við höfum þó áður sent frá okkur í hið minnsta tvo bjóra sem flokkast sem Kveik. Nafnið er tekið af ákveðnum norskum gerstofnum sem þekktir eru sem svokölluð sveita- eða farmhouse ger.

Kveik á sér talsverða sögu í Noregi og sagan segir meðal annars að hefðin sé að bruggarar öskri á eftir gerinu á leiðinni í gerjunartankinn til að kveða í burtu illa anda. Við gerum það að sjálfsögðu svo þetta endi ekki í einhverju rugli,“ segir Sturlaugur.

Í Undralandi Valdimars eru básúnaðir margslungnir bragðtaktar en í bjórnum má finna meðal annars kókos, ananas, appelsínu og læti. Alveg bullandi Lalalalalæti, eins og sungið var svo eftirminnilega í laginu Yfirgefinn. Syngið með.