Í hópnum Fjallastelpur er fjöldinn allur af konum samankominn, sem eiga það sameiginlegt að njóta hreyfingar og útiveru í náttúrunni. Í hópnum geta konur leitað ráða um allt sem brennur á þeim varðandi útivist og göngur. Valgerður Húnbogadóttir, sem oftast er kölluð Vala, og Sara Björg Pétursdóttir, segja að þær hafi fundið að mikil þörf var á hóp sem þessum og létu því til skarar skríða ásamt Ingu Hrönn vinkonu sinni og stofnuðu hann.

„Undanfarin tvö ár hefur rignt yfir mig spurningum frá vinkonum, frænkum og gömlum kunningjum, um það hvernig maður á að byrja í útivist, hvar á að kaupa réttan búnað og svo framvegis,“ segir Vala og heldur áfram:

„Mér fannst ég alltaf vera að svara svona spurningum, þannig að ég sá að það var þörf á svona hóp þar sem fólk gæti spurt spurninga og fengið svör. Upplifun okkar þriggja sem stofnuðum hópinn, var að það hallaði svolítið á konur í útivist. Það eru miklu fleiri karlar í útivist áberandi í fjölmiðlum og þegar við vorum að fara í stórar jöklaferðir voru það meira og minna karlmenn sem voru að leiðsegja okkur. Þannig að okkur langaði að stofna hóp þar sem konur gætu leitað til kvenna um ráð varðandi útivist.“

Þær Vala, Inga Hrönn og Sara Björg njóta sín best á fjöllum. Þær deila þeirri ástríðu með fjölda annarra kvenna.

„Ég held að konur eigi það svolítið til að setja sín markmið og sína drauma til hliðar á meðan þær eru að stofna fjölskyldu og koma undir sig fótunum. Það er svo margt sem getur stuðlað að því, en ég held að við konur gefum okkur almennt minni tíma til að rækta áhugamálin okkar á vissu æviskeiði og helgum okkur svolítið móðurhlutverkinu og fjölskyldulífinu,“ segir Sara og nefnir að í sögulegu samhengi hafi karlmenn almennt verið meira áberandi og leiðandi í fjallamennsku í gegnum tíðina.

„Ég held að flestar konur sem stunda fjallamennsku í dag hafi fetað sín fyrstu skref að einhverju, eða jafnvel öllu leyti undir handleiðslu karlmanna. Í dag er kynjahlutfallið að jafnast meira út og konum í fjallamennsku fjölgar stöðugt, sem er mjög ánægjulegt. Konur eru að stunda alls konar útivist og fjallamennsku um allt land og með tilkomu þessa hóps getum við verið svo mikil hvatning fyrir hverja aðra til að þróa það frekar og afla okkur meiri þekkingar og kunnáttu. Það er svo margt spennandi í boði og oftar en ekki veit maður ekki alveg hvar maður á að byrja,“ bætir Sara við.

„Þessi hópur er bara undraheimur kvenna í útivist. Það fá allar svör við spurningum sínum strax og þetta eru svo miklir viskubrunnar í þessum hópi og þær hafa veitt okkur ótrúlegan innblástur,“ segir Vala.

Fjallamennskan byggir upp andlega og líkamlega heilsu

Vala segist alla tíð hafa verið mikil útivistarmanneskja, en hún kemur úr mikilli útivistarfjölskyldu. Hún tók sér þó hlé þegar hún fór í mastersnám og eignaðist börn en ákvað svo að byrja aftur.

„Þegar ég hætti að stunda útivist þá finn ég hvernig andlegri og líkamlegri heilsu minni fer að hraka. Þegar ég var ólétt af þriðju dóttur minni, þá var ég búin að vera ólétt fjórum sinnum á tveimur árum, ég varð fyrir fósturmissi. Ég ákvað að bíða ekki eftir að barnið yrði fætt til að byrja í útivist aftur, svo ég byrjaði aftur komin nokkra mánuði á leið. Ég finn bara hvernig andleg og líkamleg heilsa byggist upp samhliða útivist. Þegar það er mikið að gera í vinnunni, þegar það er mikil streita, þá verð ég að fara út.“

Sara Björg byrjaði að stunda fjallgöngur á síðasta ári. Hún er búin að skrá sig í fjallaleiðsögunám.

Sara segist líka alla tíð hafa verið mikið náttúrubarn.

„Ég er alin upp í Keflavík sem er algjört flatlendi, en fósturfaðir minn var úr Vatnsdal í Húnavatnssýslu og þar dvaldi ég öll sumur frá tveggja ára aldri. Hann var mikið náttúrubarn og hafði gaman af því að ferðast um landið og við fjölskyldan ferðuðumst því talsvert, bæði á hálendi og láglendi. Hann var mikill veiðimaður og kenndi mér snemma að renna fyrir silung, þannig að útivistin sem ég stundaði var meira af þeim toga,“ útskýrir Sara og bætir við að hennar fjallamennska hafi í raun ekki byrjað fyrr en á síðasta ári.

Hún hafði glímt við veikindi í langan tíma án þess að vita hvað amaði að, en fékk svo að vita snemma árs árið 2018 að hún væri með MS-sjúkdóminn. Hún varð því að endurhugsa lífið aðeins.

Eftir miklar breytingar í persónulega lífinu í kjölfar greiningarinnar ákvað hún að fjarlægja alla streituvalda úr lífi sínu.

„Ég fór að leita aftur út í náttúruna, í „zenið“ mitt. Ég byrjaði að hreyfa mig aftur og fjöllin heilluðu, ég fann að ég hafði þörf fyrir að læra meira og mig langaði til að verða sjálfstæðari og öruggari á fjöllum,“ segir Sara.

Hún skráði sig á námskeið í fjallamennsku og þá var ekki aftur snúið. Í dag er Sara búin að skrá sig í eins árs nám í fjallamennsku hjá FAS á Höfn í Hornafirði sem lýkur með grunnréttindum í fjallaleiðsögn og Vala hefur lokið námskeiðinu Jökla 1, sem er fyrsta skrefið í átt að fjallaleiðsögn á jökli.

„Það er alveg búinn að opnast heill nýr heimur í þessu ferli,“ segir Vala. „Það sem er svo áhugavert við útivist er að maður lærir svo ótrúlega margt, ekki bara um náttúruna og umhverfið heldur um sig sjálfa og hvers maður er megnugur.“

Vala segir að hópurinn Fjallastelpur virki sem mikil hvatning fyrir konur sem stunda útivist, bæði vanar og þær sem eru að byrja.

Vala segist finna mikinn mun á andlegri og líkamlegri heilsu þegar hún stundar útivist.

„Við höfum séð konur sem ætluðu sér ekkert á Fimmvörðuhálsinn, fara á Fimmvörðuhálsinn út af þessum hóp, og konur sem ætluðu ekki á Hvannadalshnjúk eru að fara á Hvannadalshnjúk. Það er líka gaman að fylgjast með konum sem eru að taka próf í fjallaleiðsögn og eru að stofna sín eigin fyrirtæki í fjallaleiðsögn. Við höfum orðið vitni að því í þessum hópi.“

„Viðtökurnar við hópnum hafa farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Sara.

„Meðlimir hópsins telja núna 6.540 konur og við erum daglega að samþykkja nýja meðlimi. Hópurinn er virkur og umræðurnar fjölbreyttar. Allt frá tíðablæðingum í fjallaferðum, vali á fatnaði, öryggi á fjöllum, búnaði og leiðavali. Við höfum lært mikið af hverri annarri.“

Allar konur eru fjallakroppar óháð líkamsþyngdarstuðli

Það eru ýmis verkefni á döfinni hjá Fjallastelpum. Þær hafa haldið kynningarkvöld hjá fyrirtækjum og nýlega héldu þær fræðslukvöld í Reykjavík sem vel var mætt á.

„Við Sara erum í viðræðum við fyrirtæki um að fara í stelpuferð upp í Þórsmörk sem verður auglýst í hópnum. Svo erum við að skipuleggja stórt verkefni sem við auglýsum líklega í haust. Ég get þess vegna ekki sagt mikið frá því strax. Svo erum við með líkamsvirðingarverkefni sem er að fara í loftið,“ segir Vala.

„Við heyrum það oft frá konum að þær séu ekki í formi til að stunda fjallgöngur eða að þær þurfi að missa x mörg kíló áður en þær byrji að stunda fjallgöngur. Í okkar huga snúast fjallgöngur hins vegar fyrst og fremst um þrautseigju og hugarfar. Langflestir geta gengið á fjöll og er aðalmálið að byrja rólega og fara ekki of geyst af stað. Þú getur því verið í frábæru fjallgönguformi þó að þú sért með háan líkamsþyngdarstuðul og það er alls ekki mælikvarði á það í hversu góðu gönguformi einhver er. Við erum af öllum stærðum og gerðum og það er svolítið það sem líkamsvirðingarverkefnið snýst um. Að allar konur séu fjallakroppar óháð líkamsþyngdarstuðli,“ segir Sara.

Í dag eiga fjöllin og náttúran huga þeirra Söru og Völu allan.

„Mér líður hvergi betur en uppi á fjöllum. Þar upplifi ég mig í mestum tengslum við sjálfa mig. Þar náði ég heilsu og þar fæ ég mína næringu,“ segir Sara og Vala bætir við:

„Maður er alltaf að upplifa þessar innri gagnrýnisraddir, að maður sé ekki nógu góður, nógu sterkur, í nógu góðu formi, nógu góður í vinnunni, nógu góð móðir, og svo framvegis, en á fjöllum hefurðu ekki pláss fyrir neinar svona raddir.

Maður verður bara að standa sig eins vel og maður getur og maður kemur sjálfum sér alltaf á óvart í útivist.“