„Það var hún mamma sem kenndi mér að prjóna og frá henni hef ég hannyrðaáhugann. Mamma er mesta prjónamaskína sem ég þekki og hún kenndi mér allt sem ég kann,“ segir Kristín, sem er hjúkrunarfræðingur, fiðluleikari, prjónahönnuður og tveggja barna móðir á Akranesi.

„Mín fyrsta minning um prjónaskap er þegar ég ákvað að prjóna dúkkupeysu og vettlinga á dúkkuna mína. Ég gleymi því aldrei hvað mamma var ekki að nenna þessari vitleysu og reyndi eins og hún gat að tala mig ofan af því að prjóna flókna dúkkupeysu. Best þótti henni að ég byrjaði á einhverju einföldu, eins og húfu eða trefli, en ég hélt nú ekki og kláraði bæði peysuna og vettlingana úr örfínu garni á prjóna númer 2,5 og 3, með gatamunstri og ísaumuðum ermum,“ segir Kristín og skellir upp úr, sællar minningar.

Dásamlegur og ermalaus Maí-telpnakjóll er draumur.
Hlýtt og undurfagurt September-ungbarnasett er ein nýrra prjónauppskrifta Kristínar.

Gatamunstur í uppáhaldi

Kristín minnist þess ekki að hafa alltaf fengið hæstu einkunn í handavinnutímum bernskunnar.

„Handavinna af öllu tagi hefur alltaf legið vel fyrir mér og ég hef ekki þurft að hafa mikið fyrir henni. Því kom í snemma í ljós að þetta lægi vel fyrir mér,“ segir hún.

Fyrsta prjónastykki Kristínar var garðaprjónsrenningur í hannyrðum, áður en hún byrjaði á dúkkusettinu, en það var með því allra fyrsta sem hún prjónaði.

„Gatamunstur og klukkuprjón eru mitt uppáhald, en ég verð fljótt leið ef það er alltaf það sama í gangi. Ég elska að prufa mig áfram með nýtt garn og er ekki mikið föst í því sama,“ segir Kristín, sem velur garn eftir því hvert notagildi flíkurinnar á að verða og hverjum hún er ætluð.Hún tekur oftast í prjónana yfir sjónvarpinu á kvöldin, eða ef færi gefst á kvöld- og næturvöktum á lyflækningadeild Heilsustofnunar Vesturlands.

„Annars er ég alltaf með prjóna á mér, ef vera skyldi að færi gæfist á að taka í lykkju, og ég hika ekki við að prjóna hvar sem er og hvenær sem er, nema það sé hreinlega óviðeigandi,“ segir hún og hlær.

Mjúk og yndisfögur Maí-samfella fyrir lítil kríli.
Barnapeysan Maí er sú prjónauppskrift sem Kristín er hvað stoltust af.

Stoltust af barnapeysunni Maí

Í byrjun sumars setti Kristín á laggirnar vefsíðuna kristinragnars­knits.com, með eigin prjónauppskriftum.

„Ég ætlaði mér aldrei að semja prjónauppskriftir en þetta byrjaði allt þegar ég var að leita að uppskrift af peysu sem ég var með í kollinum en fann hvergi. Ég ákvað því að prófa mig áfram sjálf og úr varð peysan Maí. Í kjölfarið fékk ég fleiri hugmyndir og ákvað að stofna vefsíðu þar sem hægt væri að kaupa uppskriftirnar mínar. Viðtökurnar hafa svo farið fram úr öllum vonum. Það er mikil prjónabylgja núna, sem er æðislega gaman,“ segir Kristín.

Hún er stoltust af gullfallegu barnapeysunni Maí.

„Það sem einkennir uppskriftirnar mínar eru sennilega gata­munstrin. Ég bara elska að prjóna munstur og prófa mig áfram með þau. Ég spái mikið í munstur sem ég sé í kringum mig, tek myndir af því sem mér þykir fallegt og safna í hugmyndabankann. Ég hef jafnframt fengið hugmyndir að samsetningum úr japanskri munsturs-biblíu sem inniheldur fleiri hundruð munsturshugmyndir,“ greinir Kristín frá.

Litla september heitir þessi gullfallega peysa.
Gatamunstur, sem eru í dálæti hjá Kristínu, einkenna prjónauppskriftirnar hennar.

Þessa dagana er hún að skrifa tvær nýjar uppskriftir og klára opna fullorðinspeysu sem hún kallar September. Spurð hvort hún ætli að prjóna sér jólakjól, sem nú eru í móð, svarar Kristín:

„Ég hugsa ekki, en það er aldrei að vita hvað manni dettur í hug. Ég hef séð nokkra mjög fallega prjóna­kjóla sem ég gæti vel hugsað mér að gera, en stelpurnar mínar verða örugglega í prjónuðu um jólin,“ segir Kristín, sem hefur í nógu að snúast sem hjúkrunarfræðingur, mamma og fiðluleikari í hljómsveitinni Slitnir strengir.

„Ég er bara heppin að áhugamálið mitt er einnig mín slökun í amstri daganna. Að prjóna er mitt „me time“,“ segir hún sæl yfir prjónaskapnum. n

Skoðið undurfallegar prjónaflíkur Kristínar á kristinragnarsknits.com og fylgist með uppskriftagerðinni á Instagram @kristinragnars.knits