Sýning Unu Þorleifsdóttur, Prawie Równo eftir sænska leikskáldið Jona Hassen Khemiri, var valin ein af 20 bestu sýningum síðustu 10 ár í Póllandi. Fjallað er um þetta í pólskum fjölmiðlum.

Verkið heitir Prawie Równo á pólsku og er eftir sænska leikskáldið Jonas Hassen Khemiri. Una leikstýrir verkinu og er það í sýningu í Theatr im. Stefana Zeromskiego í borginni Kielce. Verkið var frumsýnt í mars í fyrra og er enn í sýningu.

„Ég var að vinna með pólskum leikurum og leikmynda- og búningahönnuði Mirek Kaczmarek, sem síðan kom hér til Íslands í haust og vann með mér að Atómstöðinni - endurlit sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu. Gísli Galdur Þorgeirsson samdi tónlistina við sýninguna í Póllandi og Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir kom með mér sem aðstoðarleikstjóri. Danshöfundurinn var pólskur, Szymon Dobosik,“ segir Una í samtali við Fréttablaðið.

Verkið rýnir í áhrif kapítalisma á líf einstaklinga.
Mynd/Una Þorleifsdóttir

„Verkið er gamanleikur um markaðslögmálin og áhrif hagkerfisins og kapítalisma á líf einstaklinga. Það fjallar um fjölskrúðugan hóp persóna sem hver og ein glímir við markaðslögmálin með sínum hætti. Spyr spurninga eins og: Hvernig hefur hagkerfið sem við lifum í áhrif á okkur, á það hvernig við horfum á hlutina, hvernig við notum tungumálið, hvernig við beitum líkama okkar, og hvernig við elskum?“ segir Una.

Verkið endurspeglar kapítalíska hugsun og leitast við að veita áhorfendum hæsta mögulega skemmtunarvirði á hvern keyptan miða.

„Við gerðum enn meira úr því með því meðal annars að selja poppkorn og standa fyrir happdrætti þar sem áhorfendur gátu unnið til veglegra verðlauna í hléi.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem gluggað var bak við tjöldin við gerð sýningarinnar.