Lög­fræðingarnir Eva Hauks­dóttir og Jón Steinar Gunn­laugs­son eru nýjustu gestirnir í Pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Þau hafa bæði vakið at­hygli fyrir að segja skoðanir sínar um­búða­laust opin­ber­lega í gegnum tíðina. Jón Steinar segir fólk upp til hópa of smeykt við að hafa sjálf­stæðar skoðanir og þora að segja þær upp­hátt.

„Fólk segir gjarnan um mig að það sé margt á­gætt sem ég segi, en það sé nú oft ekki sam­mála mér, en þegar ég geng á eftir fólki og spyr hvað það er sem það er svona mikið ó­sam­mála í því sem ég segi verður yfir­leitt fátt um svör. Ég er settur á ein­hvern stað í sam­fé­lags­um­ræðunni í stað þess að ég sé bara al­farið metinn eftir því sem ég raun­veru­lega segi. Ég skora bara á al­menning að mynda sér sjálf­stæðar skoðanir og hætta að vera í liði eða óttast að segja það sem því raun­veru­lega finnst.“

Finnst hugtök hafa verið gengisfelld

Eva segir að ef fólk missi vini út af því að það megi ekki hafa aðrar skoðanir verði það að skoða hvort slíkur vin­skapur sé þess virði yfir höfuð. Í þættinum ræða þau einnig um hatur­s­orð­ræðu sem hefur verið mikið rædd í sam­fé­laginu. Eva segist þeirrar skoðunar að fólk sé farið að grípa full auð­veld­lega í þetta hug­tak.

„Það er á­kvæði í hegningar­lögum að það geti verið refsi­vert að tala þannig um á­kveðna hópa að það geti leitt til of­beldis. Upp­haf­lega hug­myndin er að það megi ekki tala þannig að það sé verið að hvetja til of­beldis, en nú er þetta farið að ganga mjög langt. Í raun er þetta farið að ná yfir minni­háttar móðganir núna og því búið að gengis­fella hug­takið tals­vert, alveg eins og að fólk notar núna orð eins og of­beldi og fas­isma til að af­greiða um­ræður á ein­faldan hátt,“ segir Eva og bætir við:

„Það er at­hyglis­vert að á sama tíma og það er mikill þrýstingur á að ganga lengra og lengra í að það megi ekki tala um á­kveðna hópa, virðist vera í lagi að sverta ein­stak­linga, sér­stak­lega ef um er að ræða mið­aldra hvíta karla,“ segir Eva og Jón bætir við:

„Þegar farið er að ganga langt í að setja reglur um að það megi ekki tala um á­kveðna hópa er það að mínu mati bara ó­heimil skerðing á tjáningar­frelsi. Fólk verður að bera á­byrgð á því sem það segir, en fólk verður að mega tjá sig svo framar­lega sem það er innan ramma laganna og er ekki bein­línis að meiða aðra. Ég er auð­vitað hlynntur því að verja æru manna, en það sem núna er kallað hatur­s­orð­ræða um hópa, sem er alltaf að ganga lengra og lengra er mjög undar­leg þróun.

Til dæmis ef ein­hver segist efast um rétt­mæti þess að gera skurð­að­gerð á barni sem er ekki komið til vits og ára, þá getur það ekki verið hatur­s­orð­ræða. Í mínum huga hlýtur ein­stak­lingur að þurfa að fá að á­kveða slíkt sjálfur eftir að hann er orðinn full­orðinn. Ef þú talar al­mennt um mál án þess að meiða ein­stak­linga hljótum við að geta verið sam­mála um að það eigi að vera í lagi að rök­ræða. Og ef fólk talar al­mennt á lítils­virðandi hátt um hópa held ég að þjóð­fé­lagið sé komið á það þroska­stig að slíkt for­dæmi sig að sjálfu sér.“

Umræða um viðkvæm mál sé orðin of einsleit

Eva bendir á að það skili engu að ganga lengra og lengra í rit­skoðun og boðum og bönnum

„Upp­gangur ný­nasisma í Evrópu er mestur þar sem hann er bannaður. Það hlýtur að segja okkur eitt­hvað. Leiðin til að eiga við slæmar skoðanir er ekki að ýta þeim undir yfir­borðið og banna þær, heldur þvert á móti að draga þær upp á yfir­borðið og rök­ræða þær og ræða. Mér finnst fjöl­miðla­um­ræða um við­kvæm mál oft á tíðum orðin allt of eins­leit.

Það er oft nefnt að hel­förin hafi byrjað á því að einn stjórn­mála­flokkur hafi náð völdum á um­ræðunni í gegnum fjöl­miðla, sem er alveg rétt. En núna er það ekki einn flokkur sem er með völdin, heldur ein­hvers konar hreyfing sem vill stjórna allri um­ræðu. Ég er fé­lags­hyggju­sinnuð, en á alltaf minna og minna sam­eigin­legt með svo­kölluðum vinstri hug­myndum. Það er ekki af því að mínar skoðanir hafa breyst, heldur af því að vinstrið er alltaf að færa sig meira og meira í öfga­fyllri átt,“ segir Eva og Jón bætir við:

„Þetta er á vissan hátt sam­bæri­legt eins og með fíkni­efnin, þar sem bölið virðist vera mest þar sem mest er verið að banna hutina. Ég er búinn að halda því fram í ára­tugi að það sé lang­fær­sælast að lög­leiða fíkni­efni og það er fyrst núna sem ég finn að mjög margir eru sam­mála mér. En þessi til­hneiging að ætla að laga alla hluti með bönnum er ekki far­sæl lausn í mínum huga. Við verðum að hugsa hvert við erum að fara og það að ætla að taka upp lög­reglu­ríki þar sem er stans­laust verið að vernda fólk fyrir hinu og þessu er ekki lausn. Ein­hvers staðar liggur auð­vitað línan, en við verðum alltaf að verja hið frjálsa sam­fé­lag og frelsi borgara til orða og at­hafna.“