Heimsfaraldurinn hefur eyðilagt áætlanir margra fyrir verslunarmannahelgina, en þó að sóttvarnateymið hafi beðið fólk um að vera ekki á ferðinni að óþörfu þýðir það ekki að það sé ekki hægt að njóta helgarinnar í rólegheitum á höfuðborgarsvæðinu og finna sér eitthvað skemmtilegt að gera. Á morgun verður til að mynda haldinn fatamarkaður á Prikinu, þar sem hægt verður að sýna sig og sjá aðra ásamt því að finna sér einhverjar einstakar flíkur eða annað skemmtilegt, án þess að leggja sig í neina óþarfa smithættu.

„Á morgun ætlum við að hafa lítinn fatamarkað á Prikinu. Þar verða seld alls konar föt, hljómplötur, list og fleira skemmtilegt,“ segir Heiðbrá Sól Hreinsdóttir, sem stendur fyrir fatamarkaðnum í samstarfi við skemmtistaðinn. „Hún Katrín Helga, sem gefur út tónlist undir listamannsnafninu K.óla, verður líka með nýtt efni á vínyl og teikningar til sölu.

Það eru starfsmenn Priksins, fastakúnnar og aðrir sem tengjast staðnum á einn eða annan hátt sem verða með vörur til sölu,“ segir Heiðbrá. „Það verður boðið upp á allt frá götufatnaði yfir í fínni föt og fjölbreytnin verður mikil, enda er þetta mjög fjölbreyttur hópur þegar kemur að stíl og öðru, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Auðvelt að fylgja öllum reglum

„Prikið hefur haldið svona markaði í portinu nokkrum sinnum áður og það hentar vel. Veðurspáin er líka góð og það verður fínt að vera þarna úti og taka því rólega,“ segir Heiðbrá, sem segir að það hafi verið einföld ástæða fyrir því að ákveðið var að setja markaðinn upp.

„Ég var að fara yfir fataskápinn og sá að ég átti óþarflega mikið af fötum. Ég og Ísabella vinkona mín, sem vinnur líka á Prikinu, vorum að ræða það að við ættum báðar alltof mikið af fötum og ákváðum að okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt og hafa fleiri með, vera með hátalara úti og gera smá partí úr þessu,“ segir hún. „Síðan hefur veiran skemmt áætlanir margra fyrir verslunarmannahelgina svo við vildum bjóða upp á eitthvað öðruvísi fyrir þá sem ætla að vera í bænum um helgina. Af því að þetta er úti er auðvelt að passa fjarlægðir og vera með spritt og þrífa allt yfirborð. Það er auðvelt að fylgja öllum reglum.“

Heiðbrá segir það skipta máli að halda fatamarkaði til að vinna gegn fatasóun og að þetta sé skemmtilegri leið til að kaupa föt, vegna þess að það sé hægt að finna einstakar flíkur. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

Vinnur gegn fatasóun

Sjálf er Heiðbrá mjög hrifin af fatamörkuðum og finnst bæði mjög gaman að halda þá og kíkja á þá og gramsa.

„Ég hélt svona fatamarkað á Loft Hosteli fyrir tveimur árum með nokkrum vinkonum mínum. Það var svipuð pæling og núna, við vildum losa okkur við föt og skoða hver hjá annarri,“ segir hún. „Það er gaman að endurnýta í stað þess að kaupa alltaf bara nýtt.“

Heiðbrá segist hafa áhuga á umhverfismálum. „Það er eðlilegt á þessum tímum, maður kemst ekki hjá því,“ segir hún.

„Fatamarkaðir geta verið umhverfisvænir, svo lengi sem maður stundar þá nokkurn veginn eingöngu, eins og ég geri, í staðinn fyrir að vera að selja fötin sín bara til að geta keypt ný,“ segir Heiðbrá. „Þá virkar þessi hringrás.

Persónulega finnst mér það skipta máli að halda fatamarkaði til að vinna gegn fatasóun og svo er þetta almennt skemmtilegri leið til að kaupa föt, þú getur fundið einstakari flíkur en ef þú kaupir bara eitthvað fjöldaframleitt á netinu,“ segir Heiðbrá. „Það er líka algjört rugl hvað það safnast upp stórar hrúgur af fjöldaframleiddum fötum sem hafa lítið eða ekkert verið notuð áður en þau enda á haugunum, maður hefur séð það á myndum. Þetta er hálf fáránlegt þegar maður kynnir sér þetta og bara sorglegt.“

Alltaf gaman að gramsa

Þegar Heiðbrá er spurð út í sinn uppáhalds fatamarkað nefnir hún strax Kolaportið.

„Mér finnst alltaf gaman að kíkja þangað. Það er klassískt að taka röltið þar og það er alltaf góð stemning. Það er gott að gera sér glaðan dag og fara þangað að gramsa,“ segir hún. „Ég hef líka farið nokkrum sinnum til Berlínar og ég kíki alltaf á útimarkaðina þar, sem er mjög gaman.“

Heiðbrá er líka ekki í nokkrum vafa um hver sé mesti fjársjóðurinn sem hún hefur fundið á fatamarkaði.

„Bestu kaupin sem ég hef gert á fatamarkaði eru svörtu pleðurbuxurnar mínar, sem eru úr fatalínu sem var gerð út frá Buffy The Vampire Slayer-þáttunum. Þær eru sjúkar!“ segir hún.

Fatamarkaðurinn á Prikinu hefst klukkan 14 á morgun og stendur til klukkan 20. Viðburðinn er líka hægt að finna á Facebook.

„Það verður veisla og góð stemning og allir eiga að mæta, eða mér finnst það allavega,“ segir Heiðbrá að lokum.