Sigrún frétti fyrst af möguleikum hampsins í gegnum Hallormsstaðarskóla þar sem hún var að kenna. Skólinn hefur unnið með Pálma Einarssyni í Berufirði sem er ötull talsmaður fyrir ræktun hamps á Íslandi og ræktar hann sjálfur ásamt konu sinni Oddnýju Önnu Björnsdóttur. „Í skólanum voru þau byrjuð að búa til drykki og pasta úr hampi. Svo gerðu þau tilraunir með band úr hampi. Mér fannst ótrúlega spennandi að hér væri verið að koma með nýtt hráefni í textílflóru Íslands og þótti rakið að skoða hvernig hægt er að þróa aðferðir við að búa til band úr íslenskum hampi. Ég sótti því um styrk hjá Hönnunarsjóði og fékk hann,“ segir Sigrún.

Sigrún og ullin

Sigrún hefur um árabil unnið í gjöfulu samstarfi við vörumerkið Varma sem rekur prjónaverksmiðju í Ármúlanum. „Ég bý að ómetanlegri tengingu inn í ullariðnaðinn á Íslandi og er með frábæra aðstöðu. Ég er í raun eins og hálfgerður húsköttur í verksmiðju Varma en þegar fólk kemur þangað að þróa vörur kem ég yfirleitt inn í sníðagerðinni. Ég nota síðan verksmiðjuna fyrir fatalínu mína, AD, en þar vinn ég með flíkur úr íslenskri ull og afgangsbandi. Vörurnar fást meðal annars í Varma pop-up búðinni á Skólavörðustíg og á synishorn.is.

Ullin hefur verið Sigrúnu hugleikin um árabil og hannar hún fallegar ullarflíkur undir merkinu AD.

Það eru alger forréttindi að fá að valsa hér um innan um allt þetta hráefni og vinnslu. Ég hef unnið hjá fyrirtækjum þar sem framleiðslan fer öll fram erlendis og þá fór vinnudagurinn í fátt annað en tölvupóstsamskipti, en Varma er í mínum huga menningarstofnun. Það sorglega er hvað það eru fáir sem fatta hve samofin ullarvinnsla er íslenskri menningarsögu. Ég lærði fatahönnun í Danmörku, en þar er mun meiri og lengri saga á bak við hönnun og fataiðnaðurinn mun stærri en hér. Ég veit að ef Danir ættu eitthvert hráefni eins og íslensku ullina, myndu þeir hampa henni svo ótrúlega mikið. Þeir myndu aldrei líta á ullina sem sjálfsagðan hlut, eins og við Íslendingar eigum til að gera.

Varma hefur síðastliðin ár verið í vöruþróun með íslensku ullina í samstarfi við Ístex og unnið að því að búa til lambsullarband sem er mýkra en það sem við höfum áður þekkt í vélprjónabandi. Mér finnst mikilvægt að við tökum allri þeirri vöruþróun sem á sér stað með ullina, og nú með hampinn, fagnandi,“ segir Sigrún.

Hér má sjá dýrðlega gráa peysu úr AD fatamerkinu sem Sigrún hannar undir,

Endurvaktar vinsældir

Margir í tískuiðnaðinum er spenntir fyrir hampinum enda er hér um að ræða umhverfisvænt efni sem býður upp á fjölbreytta möguleika í textílframleiðslu. „Saga textíls úr hampi er um 10.000 ára gömul og er eitt af fyrstu efnunum sem mannfólkið notaði. En efnið var áður frekar grófgert og svo var plantað bönnuð í lok sjöunda áratugarins. Upp úr 1980 komu fram nýjar aðferðir við að vinna hampinn og svo eru fleiri og fleiri lönd að leyfa ræktunina á ný svo það má segja að ákveðið hampæði sé fram undan. Ég verð sífellt vör við fleiri sem vinna með hamp í fatnað. Þar má nefna útivistarmerkið Patagonia sem er þekkt fyrir að leggja mikla áherslu á umhverfisvernd, en þau bættu við 68 nýjum flíkum úr hampi blönduðum við lífræna bómull eða tencel. Á síðasti ári kom Levi’s á markað með hampgallabuxur og Kelly Slater, einn frægasti brimbrettakappi í heimi, hannar og framleiðir sjálfbæra fatalínu þar sem hampurinn er í aðalhlutverki.“

Notadrjúgur, spennandi og umhverfisvænn efniviður

„Það sem þykir svo spennandi við hampinn er hvað þarf lítið landsvæði til að fá góða uppskeru, en plantan vex mjög hátt, allt að 3-4 metra upp í loftið. Þá skilur hampurinn jörðina eftir næringarríkari en áður en honum var plantað. Ræktunin krefst lítils sem einskis utanumhalds. Það þarf til dæmis engin eiturefni og hann fær næga vökvun af rigningunni. Einnig bindur hampurinn meira af koltvísýringi úr loftinu en sama landsvæði af skógi, sem er algerlega magnað. Þá er hampfatnaður bæði endingargóður og bakteríudrepandi. Hampbandið er unnið úr trefjum í stilknum en svo má nýta alla aðra hluta plöntunnar í ýmiss konar framleiðslu. Þetta er því gífurlega notadrjúg planta.“

Hér má sjá hamptrefjar í sínu grófasta formi. Svo má vinna efnið áfram í textíl. Myndir/Aðsendar

Þjökuð af samviskubiti

„Sem fatahönnuður er ég þjökuð af eilífu samviskubiti, enda er ljóst að fataiðnaðurinn er annar mest mengandi iðnaður í heiminum í dag. Þá er bómullariðnaðurinn stór hluti af vandamálinu. Lífræn bómull er aðeins betri en venjuleg að því leyti að þá eru engin eiturefni notuð í ræktunina. Svo er alger sturlun hversu mikils vatns bómullarræktun krefst, en það kemur flestum á óvart hversu mikið vatn fer í framleiðslu á einum stuttermabol. Það sem er svo frábært við hampinn er að hann gæti í mörgum tilfellum leyst bómullina af hólmi.

Hráefnið fæ ég frá Kidda sem ræktar hamp í Vatnsnesi. En að sögn hans eru margar jarðir og tún á Íslandi sem eru lítið notaðar og væru tilvaldar í hampræktun. Það er svo spennandi að koma með eitthvað nýtt inn í íslenskan landbúnað sem hægt er að nýta á svo fjölbreyttan hátt eins og raunin er með hampinn. Ég mun byrja að skoða möguleikana á því að búa til hampband sem hægt er að prjóna og vefa úr. Hamptrefjarnar eru allt öðruvísi en ullin svo ég mun byrja á að vinna þetta í höndunum fyrst um sinn. Þá er ég að þreifa fyrir mér hér heima eftir stöðum þar sem ég get fengið að gera tilraunir með hamptrefjarnar, en ég er að vona að ég geti að einhverju leyti nýtt sömu vélar og þær sem eru notaðar til ullarvinnslu en það á eftir að koma alveg í ljós. Ein spunaverksmiðja sem ég hef talað við er Uppspuni, en þar er meðal annars verið að gera tilraunir úr þara og rósum, ásamt því að vinna band úr ull. Ég er líka á höttunum eftir samstarfsaðilum sem eru áhugasamir að koma inn í verkefnið með mér, hvort sem er með fjármagn eða taka þátt í þróunarferlinu.“

Ísland heimili hampsins

„Hér á Íslandi höfum við fullkomnar aðstæður til að rækta hamp enda höfum við allt þetta landsvæði. Svo passar þetta svo vel við ímynd okkar sem sjálfbær þjóð. En við þurfum líka að standa á bak við þessa ímynd, ekki bara í orðum heldur gjörðum. COVID-19 faraldurinn hefur kennt okkur ýmislegt og meðal annars minnt okkur á hvað það er galið að senda vörur hálfan hringinn í kringum hnöttinn og stundum er það hreinlega ekki hægt. Nú er um að gera að leita sér nær og nýta það sem er hér til staðar.“