Brynja Dan Gunnarsdóttir er einn af eigendum Extraloppunnar í Smáralind. Hún segir ákveðna tískustrauma áberandi í desember, en þá sæki fólk mikið í pallíettur og glimmerföt: „Glansefnið er að koma inn, hafmeyjufílingur. Skægrænn, bleikur og blár, föt með satínáferð og dragtir í alls konar litum,“ segir hún og bætir við að ósymmetrísk skásnið séu einnig vinsæl.

Jólatískan í ár er þægileg, litrík og skemmtileg, ef marka má tískusérfræðinga heima og heiman. Skynsemi og þægindi ráða ríkjum og gera tískumeðvituðum hægt um vik að aðlaga tískuna sínum persónulega stíl, auk þess sem eldri tíska snýr aftur og því gætu hátískugersemar leynst inni í skáp, eða á næsta nytjamarkaði. Við tökum saman nokkur atriði sem gætu hjálpað lesendum að skína í jólaboðum og útréttingum desembermánaðar, eins og jólastjörnum á vetrarhimni.

Rauður litur

Rauður litur var áberandi á tískupöllunum fyrir þetta tímabil, hjá öllum kynjum, og því er upplagt að nýta tækifærið á aðventunni og klæðast þessum fallega og jólalega lit. Það eru til mörg litbrigði af rauðum og því ættu flestir að finna eitthvað klæðilegt og skemmtilegt. Prófið rauðan trefil, rauða peysu eða rauðar sokkabuxur.

Afslappaður stíll

Áhrifa heimsfaraldurs gætir víða í tískunni og það endurspeglast vel í þessari tískubylgju. Í fyrra voru hettupeysur og þægilegur íþróttafatnaður á hvers manns vörum, en fyrir vetrartímabilið 2021 hafði þessi tíska slípast örlítið til. Síðir herrafrakkar í sloppastíl, úr mjúku og hlýju efni, eru algjörlega málið samkvæmt tískuhúsum á borð við Louis Vuitton, Jill Sander og Fendi.

Rykfrakki

Ljósbrúni, klassíski rykfrakkinn virðist halda vinsældum sínum fram á næsta ár. Það ætti að vera auðvelt að finna notaðan rykfrakka á nytjamarkaði, en í þessari tísku má jakkinn endilega vera stór með flottu belti. Það má líka bregða á hann hvaða belti sem er og skapa þannig frumlega heildarmynd. Þá er þessi tíska sérlega vetrarvæn þar sem upplagt er að klæðast góðri peysu undir jakkanum.

Fréttablaðið/Ernir

Víðar buxur

Þúsaldarkynslóðinni til mikillar gremju eru þröngar buxur eða skinny-jeans algjörlega úti, og skálmarnar eiga að vera víðar. Skemmtileg mynstur, kögur, æpandi litir og lág mittishæð eru það sem tekið hefur við.

Peysuvesti

Peysuvestið hóf innreið sína á ný árið 2020 og á bæði snertifleti við endurkomu þúsaldartískunnar og þægindatískuna sem kom með aukinni inniveru og vinnu að heiman. Hvers vegna vera í heilli peysu þegar þú getur verið í peysuvesti? Vestin eru hlý og notaleg og má bæði nota með belti og flottri skyrtu eða bol.

Fréttablaðið/Ernir

Gervifeldur og gervileður

Síðustu ár hefur loðdýrarækt verið á útleið á tískupöllunum og sífellt fleiri neytendur kjósa að velja í staðinn gervifeldi og gervileður. Vínill, latex og önnur plastefni eru til í alls konar litum og voru líka sérstaklega vinsæl fyrir tuttugu árum, þannig að það er aldrei að vita nema frænka þín lumi á flottum skóm sem gætu hæglega slegið í gegn á dansgólfinu.