Fjögurra manna fjölskylda frá Akureyri skelltu sér í Borgarbíó á Toy Story 4 og gerðu allt sem í valdi þeirra stóð til að bíóferðin yrði umhverfisvæn. „Þetta er framtíðin og er svo lítið mál, erfiðast er að stíga fyrsta skrefið,“ segir fjölskyldan í nýrri færslu á Instagram.

Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar Óli Steinar Sólmundarson hafa undanfarið ár verið að prófa sig áfram í að breyta neysluvenjum sínum til að verða umhverfisvænni og minnka vistspor fjölskyldunnar.

Hvað getur ein fjölskylda

Þau stofnuðu nýlega Instagram-reikninginn Hvað getur ein fjölskylda, til þess að leyfa öðrum að fylgjast með og mögulega hvetja aðra til að breyta sínum lífsstíl líka.

Í téðri bíóferð var öllu til tjaldað. „Við tókum með okkur vatnsbrúsa, glas fyrir gos og plastskál undir popp,“ kemur fram í færslunni en þó komu upp einhverjir hnökrar þar sem aðeins var hægt að fá popp í poka. „Þá létum við okkur nægja að kaupa einn stóran poka og helltum yfir í skálina sem við komum með svo bæði börnin gætu verið með sitt popp.“

Taka ruslið með heim

Í þessari fyrstu tilraun af umhverfisvænni bíóferð lét fjölskyldufaðirinn það eftir sér að fá sér nachos þrátt fyrir að það væri í plastboxi. „Í bíóinu sem við fórum í var ruslið ekki flokkað og vegna þess tókum við ruslið með okkur heim og settum í endurvinnslu.“ Fjölskyldan lítur svo á að hver beri ábyrgð á að eigin rusl endi á réttum stað.

„Þess má geta að nokkrum dögum eftir þessa bíóferð okkar birti Borgarbíó á Akureyri færslu um að þeir væru farnir að flokka allt sitt rusl og þeir hvetja fólk til að koma með sitt eigið ílát undir gosið.“ Litla fjölskyldan hvetur alla til að fylgja í sín fótspor og minnka vistspor sitt.

Færsluna má sjá í heild sinni hér:

View this post on Instagram

Við fjölskyldan skelltum okkur í bíó á dögunum, dóttir okkar fékk bíómiða fyrir sig og bróður sinn í afmælisgjöf (frábær gjöf) svo því lá leiðin á Toy Story 4. Við skemmtum okkur stórvel öllsömul 😊 ➖ En þetta var líka fyrsta alvöru tilraun okkar til umhverfisvænni bíóferðar 🌱 Við tókum með okkur vatnsbrúsa, glas fyrir gos og plastskál undir popp. ➖ Poppið var ekki hægt að fá nema tilbúið í poka en þá létum við okkur nægja að kaupa einn stóran poka og helltum yfir í skálina sem við komum með svo bæði börnin gætu verið með sitt popp. ➖ Óli er mikill nachos aðdáandi svo hann lét það eftir sér þó það væri í plastboxi 😅 ⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀ Gosið gátum við fengið í glasið sem við komum með 👏🏻 🌱 Í bíóinu sem við fórum í var ruslið ekki flokkað, vegna þess tókum við ruslið með okkur heim og settum í endurvinnslu. Við lítum svo á að við séum að velja að kaupa vöru sem skilur eftir sig rusl og þess vegna berum við líka ábyrgð á því að ruslið rati á rétta staði. ⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀ Þess má geta að nokkrum dögum eftir þessa bíóferð okkar birti Borgarbíó á Akureyri færslu um að þeir væru farnir að flokka allt sitt rusl og þeir hvetja fólk til að koma með sitt eigið ílát undir gosið 👏🏻 ⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀ Þetta er framtíðin og er svo lítið mál, erfiðast er að stíga fyrsta skrefið, eftir það getur maður ekki hugsað sér að snúa til baka 💚

A post shared by Hvað getur ein fjölskylda gert (@hvadgetureinfjolskylda) on