Nú styttist óðum í hrekkjavöku og mörg eru byrjuð að velta fyrir sér búningum fyrir helgina. Hátíðinni fylgir oft mikil sóun en það eru ýmsar leiðir í boði fyrir fólk til að fara umhverfisvænar leiðir, meðal annars þegar kemur að búningunum.
Ásdís Nína Magnúsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslags og hringrásarhagkerfisins hjá Umhverfisstofnun, útlistar nokkur ráð fyrir fólk sem vill reyna að minnka textílsóun þetta árið.
Ein hugmynd er að setja upp fataslá á vinnustöðum eða öðrum samkomustöðum þar sem fólk getur komið með gamla búninga sem það er hætt að nota og jafnvel fengið búning frá einhverjum öðrum á móti.
„Hérna hjá Umhverfisstofnun erum við búin að setja upp svona fataslá þar sem starfsfólk getur komið með búninga sem eru ekki lengur í notkun. Yfirleitt eru þetta barnabúningar þar sem krakkarnir eru búnir að vaxa upp úr þeim en þeir eru enn þá í mjög góðu lagi. Þá er tilvalið að koma með þá og leyfa öðrum að njóta góðs af,“ segir Ásdís.
Heimagerðir búningar
Þá gefur Ásdís nokkur dæmi um búninga sem hægt er að búa til úr því sem er til nú þegar heima án þess að þurfa að kaupa eitthvað aukalega. Í grein sem Umhverfisstofnun birtir á morgun verða um tólf slíkar búningahugmyndir í boði.
„Það er til dæmis hægt að vera fuglahræða, þá þarftu bara smekkbuxur, köflótta skyrtu og stráhatt,“ segir Ásdís. „Það er hægt að vera Audrey Hepburn, þá þarftu bara svartan kjól og nokkrar perlufestar.“
Svo er hægt að klæða sig upp sem ræningja í röndóttum bol með svarta húfu, svartar buxur og taupoka með peningamerki á.
„Það er hægt að vera Wednesday Adams, þá þarftu bara skyrtu og svartan kjól og flétta hárið í tvær fléttur,“ segir Ásdís. „Svo er klassíski draugurinn, þá þarftu bara gamalt lak og skæri.“
Þá segir hún að sumir búningarnir bjóði upp á meira föndur, eins og leðurblakan. Þá er ónýt regnhlíf klippt í tvennt og saumuð við svarta hettupeysu.

„Svo erum við líka að benda á að það er hægt að kaupa notaða búninga og vísum þar á nokkra aðila sem eru um allt land, það eru Rauða kross búðirnar og Aftur nýtt á Akureyri, Barnaloppan, Extra loppan og Hertex, til dæmis,“ segir Ásdís.
Einnig er hægt að leigja búninga hjá verslunum, til dæmis frá Saumsprettunni og að lokum er hægt að fá lánaða búninga frá vinum og vinkonum sem eiga gamla búninga í skápnum.
Textíliðnaðinum fylgi mikil mengun
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er textíliðnaðurinn einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
Umhverfisstofnun Evrópu og Norræna ráðherranefndin skilgreinir textíl sem fjórða stærsta umhverfisþátt einstaklinga á eftir húsnæði, samgöngum og matvælum. Áætlað hefur verið að við framleiðslu á einum stuttermabol þurfi í kringum þrjú þúsund lítra af vatni.
Þá segir Umhverfisstofnun framleiðslu á textíl hafa í för með sér mikla mengun á ferskvatni í þeim löndum þar sem framleiðslan fer fram. Sameinuðu þjóðirnar hafi áætlað að um tuttugu prósent af allri mengun sem finna má í skólpi frá iðnaði sé frá textíliðnaðinum og að átta til tíu prósent af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum megi rekja til textíliðnaðarins.
Hægt er að sjá fleiri leiðir til að minnka umhverfisáhrifin sín á www.samangegnsoun.is en þar er til að mynda hugmyndir um hvernig sé hægt að nýta grasker sem notuð eru til skreytingar.