Nú styttist óðum í hrekkja­vöku og mörg eru byrjuð að velta fyrir sér búningum fyrir helgina. Há­tíðinni fylgir oft mikil sóun en það eru ýmsar leiðir í boði fyrir fólk til að fara um­hverfis­vænar leiðir, meðal annars þegar kemur að búningunum.

Ás­dís Nína Magnús­dóttir, sér­fræðingur á sviði lofts­lags og hring­rásar­hag­kerfisins hjá Um­hverfis­stofnun, út­listar nokkur ráð fyrir fólk sem vill reyna að minnka textíl­sóun þetta árið.

Ein hug­mynd er að setja upp fata­slá á vinnu­stöðum eða öðrum sam­komu­stöðum þar sem fólk getur komið með gamla búninga sem það er hætt að nota og jafn­vel fengið búning frá ein­hverjum öðrum á móti.

„Hérna hjá Um­hverfis­stofnun erum við búin að setja upp svona fata­slá þar sem starfs­fólk getur komið með búninga sem eru ekki lengur í notkun. Yfir­leitt eru þetta barna­búningar þar sem krakkarnir eru búnir að vaxa upp úr þeim en þeir eru enn þá í mjög góðu lagi. Þá er til­valið að koma með þá og leyfa öðrum að njóta góðs af,“ segir Ás­dís.

Heimagerðir búningar

Þá gefur Ás­dís nokkur dæmi um búninga sem hægt er að búa til úr því sem er til nú þegar heima án þess að þurfa að kaupa eitt­hvað auka­lega. Í grein sem Um­hverfis­stofnun birtir á morgun verða um tólf slíkar búninga­hug­myndir í boði.

„Það er til dæmis hægt að vera fugla­hræða, þá þarftu bara smekk­buxur, köfl­ótta skyrtu og strá­hatt,“ segir Ás­dís. „Það er hægt að vera Audrey Hep­burn, þá þarftu bara svartan kjól og nokkrar perlu­festar.“

Svo er hægt að klæða sig upp sem ræningja í röndóttum bol með svarta húfu, svartar buxur og taupoka með peninga­merki á.

„Það er hægt að vera Wed­nes­day Adams, þá þarftu bara skyrtu og svartan kjól og flétta hárið í tvær fléttur,“ segir Ás­dís. „Svo er klassíski draugurinn, þá þarftu bara gamalt lak og skæri.“

Þá segir hún að sumir búningarnir bjóði upp á meira föndur, eins og leður­blakan. Þá er ónýt regn­hlíf klippt í tvennt og saumuð við svarta hettu­peysu.

Enn ein hugmyndin um einfalda búningahönnun sem þarfnast aðeins spilastokk, rauðan kjól og kórónu eða hárskraut.

„Svo erum við líka að benda á að það er hægt að kaupa notaða búninga og vísum þar á nokkra aðila sem eru um allt land, það eru Rauða kross búðirnar og Aftur nýtt á Akur­eyri, Barna­l­oppan, Extra loppan og Hertex, til dæmis,“ segir Ás­dís.

Einnig er hægt að leigja búninga hjá verslunum, til dæmis frá Saum­sprettunni og að lokum er hægt að fá lánaða búninga frá vinum og vin­konum sem eiga gamla búninga í skápnum.

Textíliðnaðinum fylgi mikil mengun

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Um­hverfis­stofnun er textíl­iðnaðurinn einn sá um­fangs­mesti í heimi og honum fylgir gríðar­leg efna­notkun, fersk­vatns­mengun og losun gróður­húsa­loft­tegunda.

Um­hverfis­stofnun Evrópu og Nor­ræna ráð­herra­nefndin skil­greinir textíl sem fjórða stærsta um­hverfis­þátt ein­stak­linga á eftir hús­næði, sam­göngum og mat­vælum. Á­ætlað hefur verið að við fram­leiðslu á einum stutt­erma­bol þurfi í kringum þrjú þúsund lítra af vatni.

Þá segir Um­hverfis­stofnun fram­leiðslu á textíl hafa í för með sér mikla mengun á fersk­vatni í þeim löndum þar sem fram­leiðslan fer fram. Sam­einuðu þjóðirnar hafi á­ætlað að um tuttugu prósent af allri mengun sem finna má í skólpi frá iðnaði sé frá textíl­iðnaðinum og að átta til tíu prósent af heildar­losun gróður­húsa­loft­tegunda í heiminum megi rekja til textíl­iðnaðarins.

Hægt er að sjá fleiri leiðir til að minnka um­hverfis­á­hrifin sín á www.saman­gegn­soun.is en þar er til að mynda hug­myndir um hvernig sé hægt að nýta gras­ker sem notuð eru til skreytingar.