Rétta lýsingin skiptir meira máli en margir halda. Góð lýsing veitir fólki vellíðan um leið og heimili og húsgögn fá að njóta sín. Lýsing má ekki vera þannig að hún trufli fólk eða valdi því vanlíðan.

Mismunandi er eftir rýmum hvernig lýsing hentar best. Í forstofu er gott að hafa loftljós sem dreifir birtunni vel um herbergið, lýsir upp forstofuskápinn eða annað sem er í mikilli notkun. Það er ráð að vera með lýsingu inni í forstofuskáp því þannig sést vel í allar yfirhafnir og skó, t.d. með því að nota díóðulýsingu. Vegglampar passa vel í forstofu, þ.e. ef veggplássið leyfir, líkt og kastarar eða innbyggð ljós en sjaldnast hentar að vera með hangandi ljós í slíku rými.

Gott er að stjórna birtunni í stofunni með dimmerum og skapa þannig notalegt andrúmsloft.

Stofan er oftast mest notaða rými heimilisins. Það fer eftir stærð stofunnar hvernig lýsing hentar best. Oft er gott að vera með smekklega kastara á brautum eða látlaus, innfelld ljós í loftinu, eða eins og hentar smekk hvers og eins. Fallegt er að lýsa sérstaklega upp myndir eða málverk á veggjum með þar til gerðum kösturum en gæta þess þó að birtan verði ekki of skær. Nauðsynlegt er að geta stjórnað lýsingu í stofunni með dimmerum því oft þarf að hafa mikla birtu í stofunni en stundum meira kósý.

Standlampar og borðlampar eru tilvaldir í stofunni þar sem ekki er vegglýsing, eða einfaldlega til að skapa notalega stemningu. Lampar dreifa oftast frá sér mjúkri birtu. Margir eru hrifnir af því að vera með vegglampa í stofunni en þeir eru fínir til að ná fram þægilegri birtu. Bæði standlampar og loftljós geta verið lífstíðareign og því skynsamlegt að vanda vel valið á þeim.

Í borðstofunni passar vel að vera með hangandi loftljós yfir borðstofuborðinu. Það er hægt að velja um ótal smart loftljós en hafa þarf í huga að þau lýsi beint niður á borðið. Ljósið ætti helst að hanga í um 80 cm hæð frá borðinu. Margir nota borðstofuborðið fyrir heimalærdóminn og þá er gott að hafa dimmer til að stjórna betur birtunni.

Lýsing í eldhúsi þarf að vera þannig að gott sé að vinna í því.

Vinnuljós eru bráðnauðsynleg í eldhúsinu. Oft eru slík ljós undir efri skápum og lýsa beint niður á vinnuborðið. Kastarar eða innbyggð loftljós henta vel í eldhúsum, en sérlega fallegt getur verið að hafa óbeina lýsingu í slíku rými. Hangandi ljós henta vel yfir matarborði.

Í flestum svefnherbergjum eru náttborðslampar og loftljós en þá þarf að gæta þess að peran sé ekki of sterk. Líkt og í forstofum er gott að hafa lýsingu í fataskápum, því þannig er miklu betra að sjá hvað leynist í hillum og skúffum. Náttborðslampar þurfa að gefa frá sér góða birtu fyrir lestur.

Baðherbergislýsing getur stundum verið snúin en þar eru spegilljós mikilvæg. Gott er að hafa ljós á bak við spegilinn eða veggljós fyrir ofan spegil eða jafnvel innbyggt í spegilinn sjálfan. Birtan þarf að vera nógu skær til að að hægt sé að nota spegilinn fyrir t.d. rakstur eða förðun.