Á jólunum er til siðs að borða eins og enginn sé morgundagurinn og það er engin ástæða til að njóta ekki jólahlaðborðsins til fullnustu, en til þess þurfa samt allir að fylgja ákveðnum siða- og sóttvarnareglum. Vegna heimsfaraldursins er vitaskuld sérlega mikilvægt að virða þessar reglur til að jólahlaðborð geti yfirhöfuð farið fram þetta árið. Hér eru nokkrar góðar reglur sem er fínt að hafa í huga til að veislan geti farið vel fram, til viðbótar við almennar sóttvarnareglur sem þarf auðvitað að fylgja í hvívetna.

Hugið að hreinlæti

- Fyrst þarf auðvitað að huga að almennu hreinlæti og þvo og spritta hendurnar áður en snert er á diskum eða mat. Það á líka aldrei að snerta mat með höndunum, heldur nota tólin og hnífapörin sem eru til staðar. Það er líka alveg bannað að færa tangir eða önnur tól á milli bakka eða diska, því það er aldrei að vita nema einhver sé með fæðuóþol og grænkerar vilja yfirleitt aldrei að tólin sem þeir nota hafi snert kjöt.

- Ef þú þarft að hnerra eða hósta við hlaðborðið geturðu bókaðað fá augngotur og jafnvel (mis)vel valdar háðsglósur, en það verða allir þakklátir ef þú stígur frá hlaðborðinu og auðvitað á að gera þetta í olnbogabótina en ekki hendurnar.

- Það er líka alveg bannað að dýfa sama matarbitanum tvisvar í meðlæti, sósur eða annað. Aldrei. Dýfa. Tvisvar.

Í röðinni

- Hlaðborð eru yfirleitt einstefnugötur. Ekki ryðjast og ekki fara á móti umferð. Það þykir líka ekki fínt að labba upp að vini eða kunningja sem er þegar í röðinni og nota spjallið við viðkomandi sem afsökun fyrir því að troða sér inn í röðina. Svo er gott að drolla ekkert við að fá sér svo aðrir komist að.

- Í fyrstu umferð er gott að velja sér forrétt, salat og aðalrétt en það þarf annan disk fyrir eftirmatinn, þannig að það er betra að láta hann bíða þangað til í annarri umferð. Það er ekki fínt að byrja að borða á meðan þú ert enn að fara í gegnum hlaðborðsröðina né að hrúga á diskinn sinn, þetta verður að öllum líkindum ekki í síðasta sinn sem þú kemst í matvæli. Það er líka synd að taka meira en maður getur borðað, því afganginum verður hent og þar með sóað.

- Það ætti alltaf að fylgja litlum börnum í gegnum hlaðborðið og hjálpa þeim að fá sér það sem þau þurfa.

Við matarborðið

- Ekki teygja þig yfir aðra, það er dónalegt og gæti líka valdið slysi.

- Notaðu hnífapör, ekki puttana og ekki troða of miklu upp í þig í einu. Notaðu hnífapörin til að lyfta matnum upp í munninn, í stað þess að beygja þig yfir diskinn og skófla upp í þig. Reyndu líka að borða af yfirvegun.

- Samræður við matarborðið ættu að vera ánægjulegar, léttar og skipta þá sem sitja við borðið máli.

- Síðast en ekki síst er mikilvægt að sýna bæði öðrum gestum og öllu þjónustufólki virðingu og þakka alltaf vel fyrir sig.