Leikarinn George Clooney er ekki allskostar sáttur við umfjöllun fjölmiðla um hertogaynjuna Meghan Markle en hann segir að umfjöllunin minni sig á óvægna umfjöllun um Díönu prinsessu, sem líkt og allir vita lést í bílslysi árið 1997. 

Ástæður þess að leikarinn tjáir sig um hertogaynjuna er sú að bresk götublöð hafa birt orðróma um það að hann verði mögulega guðfaðir væntanlegs erfingja Meghan og Harry Bretaprins. Hann segir að það sé ekki rétt, í umfjöllun E News.

„Ég sá þessa frétt. Þeir eru bara að elta Meghan Markle út um allt. Hún hefur verið elt og gerð að skúrki. Hún er kona sem er komin sjö mánuði á leið og henni er fylgt eftir, hún gerð að skúrki og hún elt á sama hátt og Díana var. Þetta er sagan að endurtaka sig...og við höfum séð hvernig það endar,“ segir Clooney og vísar þar í að Díana, lést í bílslysi eftir að bifreið hennar var elt af slúðurblaðaljósmyndurum.

Þá vísar Clooney jafnframt í bréf sem bresku götublöðin gerðu sér mat úr um helgina og er sagt vera frá Meghan til föður hennar, Thomas Markle, þar sem hún tjáir sig um pirring sinn yfir endurteknum ummælum hans í fjölmiðlum um samband þeirra. 

„Það er illa farið með hana. Þetta er óábyrgt,“ segir Clooney en bresku götublöðin hafa jafnframt fullyrt að kastast hafi í kekki á milli Meghan og Kate Middleton. Clooney er ekki sá eini sem hefur furðað sig á umfjöllun blaðanna um Meghan en bandaríski fréttamaðurinn Max Foster hefur áður sagt að hann skilji ekkert í henni.