TJ Miller, umdeildur uppistandari og Hollywood leikari sem hefur verið sakaður um brjóta gegn og áreita konur, verður með uppistandssýningu í Háskólabíói á næsta ári, þann 7. maí 2022.

Íslendingar þekkja leikarann úr kvikmyndunum Deadpool, Get Him To The Greek, The Emoji Movie og Big Hero 6 og þáttunum Silicon Valley svo fátt eitt sé nefnt. Í tilkynningu frá Senu Live segir:

„Það er [...] sérstaklega ánægjulegt að hann skuli stíga aftur á svið og koma fram í eigin persónu um alla Evrópu á næsta ári. Við erum heppin að Ísland sé partur af túrnum og ljóst að ógleymanlegt kvöld er í vændum laugardaginn 7. maí í Háskólabíói.“

Miller var handtekinn árið 2016 fyrir líkamsárás en hann greiddi 20 þúsund dollara tryggingu til að þurfa ekki að sitja í gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldum. Leikarinn náði að útkljá málið utan réttarhalda með sáttagerð (e. settlement).

Þegar fyrsta bylgja MeToo fór af stað í bandaríkjunum var Miller sakaður um að hafa kyrkja fyrrverandi kærustu sína og kýla hana í andlitið meðan þau stunduðu kynmök. Miller neitaði sök og sakaði konuna, sem ræddi við blaðamann Daily Beast, um að nýta sér MeToo bylgjuna til að sverta mannorð sitt. Sama dag og fréttin birtist tók Comedy Central þáttinn hans, The Gorburger show, úr loftinu.

Hér fyrir neðan má sjá færslu Miller eftir að ásakanirnar birtust í fréttum.

Miller var handtekinn á LaGuardia flugvellinum árið 2018 fyrir að hafa hrópað til lögreglu að kona sem var um borð í lest Amtrak frá Washington D.C. til New York, væri með sprengju í handtösku sinni. 

Lestin var stöðvuð og yfirfarin án þess að sprengja fyndist um borð. Starfsmaður lestarinnar og aðrir farþegar sögðu að Miller hafi verið undir áhrifum áfengis og verið að angra konu sem sat rétt hjá honum í fyrsta farrými lestarinnar.

Í kjölfar fregna af lestarmálinu var Miller rekinn úr hlutverki sínu í teiknimyndinni How to Train Your Dragon.