Gríðarleg óánægja ríkir meðal kvikmyndaframleiðenda í Hollywood eftir að Akademían svokallaða, sem fer með skipulagningu Óskarsverðlaunanna, tilkynnti að fjórir verðlaunaflokkar verði klipptir út úr sýningu á aðalhátíðinni en þess í stað verða verðlaunin veitt á meðan auglýsingahléi stendur og sýnt á vefsíðu Óskarsins og á samfélagsmiðlum. Um er að ræða verðlaunafhendingu fyrir myndatöku, klippingu, stuttmyndir og hárgreiðslu og förðun, að því er fram kemur á vef Hollywood Reporter.

Aðstandendur hátíðarinnar tilkynntu raunar um breytingarnar í ágúst síðastliðnum en það var ekki fyrr en á mánudag sem að kynnt var hvaða flokkar yrðu „klipptir út“ með þessum hætti. Eins og áður segir gætir óánægju með breytingarnar og leikstjórinn og Óskarsverðlaunahafinn Guillermo del Toro tjáði sig meðal annars um breytingarnar á Twitter.

„Ef ég má leyfa mér: Ég geri ekki ráð fyrir að geta lagt til hvaða flokka ætti að klippa út úr Óskarssýningunni en - myndataka og klipping er hjarta þess sem við gerum. Við fáum það ekki úr leikverkahefð eða bókmenntahefð: þetta er kvikmyndin sjálf.“

Að sögn Akademíunnar er gripið til umræddra breytinga vegna lækkandi áhorfs en aldrei hafa færri áhorfendur litið verðlaunin augum heldur en í fyrra en einungis 26,5 milljónir áhorfenda horfðu á verðlaunin í beinni, árið áður horfðu 32,9 milljónir. 

Kvikmyndargerðarmaðurinn og blaðamaðurinn Richard Brody hefur tjáð sig um málið og sagt að það skipti Akademíuna greinilega ekki máli að Óskarsverðlaunin haldi áfram að snúast um það sem þau hafi alltaf átt að snúast um, heldur blindi áhyggjur af lækkandi áhorfi meðal ungs fólks og fólks annarsstaðar frá í Bandaríkjunum en af vestur-og austurströndinni. Verðlaunahátíðin fer fram þann 24. febrúar næstkomandi.