Nýja Reykjavík

Dagur B. Eggertsson

Útgefandi: Veröld

Fjöldi síðna: 352

Það er ljóst að stakkaskipti Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands eru Degi B. Eggertssyni, höfundi Nýju Reykjavíkur, mikið ástríðuefni.

Nýútkomin bók hans ber öll merki þess. Hún er kannski engin Njála byggingarsögu en upplýsandi rit að mörgu leyti. Texti bókarinnar og myndaval er oft af persónulegum toga. Þannig mætti segja að sumpart sé um að ræða ákveðinn ævisöguhluta Dags sem hann kýs að segja sjálfur, auk skipulagsfróðleiks.

Það er dálítil kúnst að troða þessu tvennu undir einn hatt. Sumt gengur vel upp en á köflum vantar kannski ögn upp á jafnvægi þar sem persónusagan verður full ágeng.

Dagur er vitaskuld umdeildur maður, líkt og flestir aðrir þaulsætnir foringjar. En minna umdeildur en búast mætti við. Ástæðu þess má eflaust þakka þeim eiginleikum sem hann býr yfir sem manneskja. Fæstir efast um brennandi áhuga hans á umhverfismálum og sem brautryðjanda í femínískum áherslum.

Kemur hvort tveggja fram með skýrum hætti í bókinni. Ráðandi áhersla er á framtíðarsýn sem illu heilli skortir oft hjá stjórnmálamönnum. Höfundur er óhræddur við að læða tilfinningum í textann. „Ráðhús hinna sterku kvenna er ein millifyrirsögnin“. „Ástfanginn af skipulagsmálum“ er kaflaheiti.

Það kann að vekja athygli hve Dagur hnýtir lítt í pólitíska andstæðinga sína. Hvað það varðar kallast bókin á við Rætur Ólafs Ragnars Grímssonar. Dagur veit, líkt og fyrrverandi forseti Íslands, að samhent átak þarf til umbóta, hvort sem um ræðir skipulagsmál eða framtíð barnanna okkar. Þá er oft best að halda sig á uppbyggilegum nótum.

Loftslagsmálin og Borgarlínan fá eðli máls samkvæmt nokkurt vægi. Hluti bókarinnar útskýrir og réttlætir hvers vegna almenningsamgöngur eru það sem koma skal. Dagur stígur þó ekki skrefið um of sem sölumaður eigin hugmynda.

Afstaðan liggur eigi að síður skýrt fyrir: Einkabílnum er nú á tímum gert of hátt undir höfði.

„Til viðbótar þessu öllu fylgja virkum ferðamátum betri loftgæði, færri alvarleg umferðarslys og regluleg og góð hreyfing sem hefur ótvíræð jákvæð áhrif fyrir einstaklinginn en einnig lýðheilsu og heilbrigði þjóðarinnar,“ skrifar Dagur.

Ætlar einhver að mótmæla lækninum Degi svo bragð sé að? n

Niðurstaða: Bók sem á mikið erindi við samtímann. Samfélagsfróðleg og persónuleg í senn og vekur lesendur til umhugsunar.