Mathew Rosengart, lögmaður Britney Spears, hefur sakað Jamie Spears, föður Britney, um að vera spilafíkil og alkóhólista í nýjum gögnum sem voru lögð fyrir dómstóla á meðan Rosengart berst fyrir því að Britney fái sjálfræði á ný.

Jamie hefur sjálfur óskað eftir því að hætta sem lög­ráða­maður eigna dóttur sinnar.

Brit­n­ey hefur undan­farna mánuði háð bar­áttu við dóm­stóla í Kali­forníu fyrir því að fá aftur sjálf­ræði eftir að hafa verið undir for­ræði föður síns í þrettán ár.

Rosengart fór fram á að John Zabel myndi taka við sem lögráðamaður eigna Britney á meðan málið er enn fyrir dómstólum en Jamie hefur kært ákvörðunina að skipa Zabel sem lögráðamann.

Í svörum Rosengart sakar hann Jamie um að hafa enga fjárhagslega þekkingu, hann hafi áður sótt um gjaldþrotaskipti og þurft að sæta nálgunarbanni.

Um leið sakar Rosengart Jamie um að hafa beitt dætur sínar ofbeldi og komið fyrir hlerunarbúnaði í svefnherbergi söngkonurnar.

Bandarískir fjölmiðlar segja að FBI sé að rannsaka tilraunir Jamie til að hlera samskipti dóttur sinnar en Jamie heldur því fram að Britney hafi samþykkt uppsetningu hlerunarbúnaðarins.

Aðdáendur Britney hafa barist fyrir því að söngkonan fái sjálfræði á ný
fréttablaðið/getty