Inga Björk Ingadóttir er menntuð tónlistarkona og músíkmeðferðarfræðingur. Eftir burtfararpróf í píanóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs árið 1999 fór hún í háskólanám í músíkmeðferð í Berlín 2001–2006. Í kjölfarið starfaði hún við músíkmeðferð og sértæka tónlistarkennslu í Þýskalandi og Austurríki á hinum ýmsu stofnunum, bæði á heilbrigðis- og uppeldissviði.

„Frá árinu 2011 hef ég svo boðið upp á músíkmeðferð hér á Íslandi. Ég hef starfað á ýmsum sviðum í mínu meðferðarstarfi, einna helst með börnum og ungmennum. En einnig í klíníska geiranum við líknandi meðferð á sjúkrahúsi sérhæfðu í krabbameinslækningum,“ segir Inga Björk.

Árið 2014 stofnaði Inga Björk Hljómu sem hún starfrækir í Hafnarfirði. Hún er starfandi tónlistarkona og hefur aðsetur í Hljómu. „Ég er tónskáld, lýruleikari og söngkona. Ég hef gefið út tvær breiðskífur og allnokkrar smáskífur auk myndbanda, og held reglulega tónleika: nú síðast með Matthíasi Hemstock slagverksleikara. Í Hljómu sinni ég einnig bæði músíkmeðferð og sértækri tónlistarkennslu. Einnig held ég þar námskeið fyrir yngsta tónlistarfólkið og tek daglega á móti skjólstæðingum og nemendum frá eins árs gömlum og upp úr.“ Ásamt starfi sínu í Hljómu sinnir Inga Björk sértækri tónlistarkennslu í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Kópavogs.

Inga Björk vinnur með alls konar fólki. Hér kemur nemandi fram fyrir framan samnemendur sína.

Það býr tónlist í okkur öllum

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tónlist og fólki og starfið mitt sameinar þessi áhugasvið á svo skapandi og magnaðan hátt. Hver og einn skjólstæðingur kemur á sínum eigin forsendum og við finnum í sameiningu hentugustu leiðina um tónlistina. Við í tónlistinni og hún í okkur. Því það býr jú tónlist í okkur öllum.“

Músíkmeðferð segir Inga Björk að sé hvort tveggja fræðigrein og meðferðarform. „Tónlist í öllum sínum fjölbreyttu formum hefur frá örófi alda verið notuð á eflandi, uppbyggjandi og heilandi máta, enda eru jákvæðir eiginleikar hennar svo magnaðir og ótal margir. Það var svo fyrir miðbik síðustu aldar að það fór að þróast fræðigrein um heilunargildi tónlistar og hægt var að læra um það og öðlast sérfræðiþekkingu í faginu. Samhliða hefur fagfólk um allan heim unnið mikilvæga rannsóknarvinnu á greininni sem sýnir fram á djúpstæð áhrif músíkmeðferðar og ótvíræðan jákvæðan ávinning fyrir skjólstæðinga sem hljóta hana.“

Inga Björk sinnir yngri kynslóðinni mikið í tónlistarkennslu. Hér taka börn þátt í Barnahörpunni, hópnámskeiði fyrir 2-6 ára.

Inga Björk er félagi í Físmús, félagi músíkmeðferðarfræðinga á Íslandi, og var formaður félagsins 2015–2018. „Samkvæmt skilgreiningu Físmús, er músíkmeðferð skipulögð notkun tóna, hljóða og hreyfinga sem beitt er til að auka vellíðan eða endurnýja, viðhalda og þróa andlega og líkamlega heilsu og/eða getu. Sérstök tón- og hljóðáreiti, eða eiginleikar og eðlisþættir tóna og hljóða, og tengsl sem myndast í tónlistarreynslunni eru notuð af sérfræðingi í þeim tilgangi að ná settum markmiðum í meðferð, kennslu og endurhæfingu fólks sem á við líkamleg, andleg og félagsleg vandamál eða fötlun að stríða.

Hér á landi eru nokkrir sem sinna músíkmeðferð, en eins og búast má við eru fleiri sem sinna faginu í löndunum í kringum okkur. Þar er aðgengi að námi í faginu en músíkmeðferð er ekki kennd hér á landi á háskólastigi. Einnig eru teymisvinna fagaðila og fjölþættari meðferðarúrræði þar lengra á veg komin en á Íslandi,“ segir Inga Björk.

Tónlist hefur heilandi áhrif og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Það býr tónlist innra með okkur öllum.

Þarf að vera tónlistarmenntaður til þess að geta fundið áhrif músíkmeðferðar?

„Músíkmeðferð er fyrir alla og er engrar tónlistarkunnáttu krafist. Starfssvið okkar sem músíkmeðferðaraðila er því afar fjölbreytt. Við sinnum alls konar fólki; mæðrum og fyrirburum, börnum og ungmennum með ýmsar áskoranir, fullorðnum í líkamlegum og/eða andlegum veikindum í klínísku teymi, fólki með heilabilun eða í líknandi meðferð, svo nokkur dæmi séu tekin. Meðferðarvinnan er einnig afar einstaklingsmiðuð. Yfirbragð og viðfangsefni hvers meðferðarferlis er eins fjölbreytilegt og við erum öll ólík. Hljóðfæri sem eru notuð eru af öllum stærðum og gerðum. Röddin, hreyfing, textar, tónar og þögn eru svo nokkur dæmi um þætti sem koma líka við sögu.“

Börn elska tónlist.
OLGA BJÖRT ÞÓRÐARDÓTTIR

Þú sinnir líka tónlistarkennslu. Blandast aðferðir músíkmeðferðar eitthvað inn í kennsluna og öfugt?

„Sértæk tónlistarkennsla er náskyld músíkmeðferðinni. Sviðin skarast að einhverju leyti og þar er handbragð músíkmeðferðarfræðingsins alltaf til staðar. Ég finn fyrir mikilli vakningu hjá tengdum starfsstéttum og tónlistarskólum og breyttri sýn á aðgengi að tónlistarnámi. Allir eiga að fá tækifæri til tónlistarnáms, óháð áskorunum sínum. Og með hjálp okkar fagfólksins á tónlistarnám og sköpun að laga sig að þörfum barnanna og ungmennanna en ekki öfugt.“