Smáskífan er sú síðasta sem Ultra­flex sendir frá sér áður en önnur breiðskífa þeirra, Infinite Wellness, kemur út þann 7. október. „Þetta er okkar eigið uppáhaldslag af þeim sem við höfum samið,“ segir Katrín um lagið sem var erfiðast að semja af þeim sem mynda breiðskífuna saman.

Vinnutitill lagsins var Power Ballad og þær reyndu öll trikkin í bókinni til þess einmitt að semja kraftballöðu og þar gætir áhrifa ekki ómerkara spáfólks en Spice Girls, Madonnu, Usher og Enrique Iglesias.

„Það er samt ekki víst að þetta verði uppáhaldslag áheyrenda vegna þess að þetta er rólegra en við erum vanar að vera með. Þetta er ballaða en við erum venjulega meira diskó og dans.“

Tónlistarmyndbandið við Melting Away kemur einnig út í dag og þær stöllur skrúfuðu metnaðinn einnig í botn við gerð þess. „Þetta er metnaðarfyllsta myndbandið okkar. Við erum venjulega svona í heimagerðum myndböndum en settum svolítinn pening í þetta og fengum styrk til þess að gera það.“

Kristín Helga Ríkharðsdóttir leikstýrir og kóreógrafían er eftir Selmu Reynisdóttur. Blair Alexander sá um myndatöku, Elín Erna Stefánsdóttir farðaði og Álfgrímur Aðalsteinsson leikur í myndbandi ásamt okkur,“ segir Katrín og lætur þess einnig getið að Bjarni Daníel töfri fram dásamlega spænska tóna í anda Iglesias á gítarinn á meðan Magnús Tryggvason Eliassen sjái um slagverk.

Katrín var að bruna með lest í Þýskalandi þegar Fréttablaðið náði tali af henni þar sem Ultraflex hefur fleiri hnöppum að hneppa í dag en Melting Away þar sem þær koma í dag fram á Reeperbahn tónlistarhátíðinni í Hamborg.

Breiðskífan er síðan rétt handan við hornið. „Við erum ógeðslega spenntar og vorum að fá vínýlinn í hús. Hann er rosa fallegur. Við erum ekki að græða neitt á því að gefa út á vínýl og komum út á núlli ef við erum heppnar en það er bara svo gaman að hafa eitthvað áþreifanlegt.“