Ullarpeysan hefur fylgt manneskjunni frá örófi alda og vinsældir hennar fara síður en svo minnkandi. Talið er að prjónaflíkur úr ull hafi borist til Evrópu frá Miðausturlöndum. Elsti prjónaði ullarbútur sem fundist hefur í Evrópu fannst á Spáni og er talinn vera frá 13. öld. Þekkt er að sjómenn á Írlandi notuðu ullarpeysur sem gerðar voru úr óþveginni ull sem innihélt ennþá hina náttúrulega ullarfitu lanolín. Lanolínið gerir það að verkum að peysan hrindir frá sér vatni og hentar því mjög vel úti á sjó.

Íslenska lopapeysan er vinsæl en á sér ekki mjög langa sögu. NORDICPHOTOS/GETTY

Íslenska ullin er ekki eins feit og sú írska, en sérstaða hennar er að hún er með tvenns konar þræði. Ytri þræðirnir kallast tog og eru langir og harðgerir. Innri þræðirnir kallast þel og eru fíngerðir, mjúkir og einangrandi.

Íslenska ullinn var aðalefniviður í klæðnaði Íslendinga á landnámsöld og lengi eftir það. En íslenska lopapeysan sem við þekkjum í dag, þessi með hringlaga munsturbekk yfir axlirnar, á sér aftur á móti mun styttri sögu. Hún kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Til að byrja með var hún eingöngu í íslensku sauðalitunum, hvítum, svörtum, gráum og brúnum en aðrir litir og nýjar útfærslur á mynstri hafa bæst við á undanförnum áratugum.

Hin hefðbundna íslenska lopapeysa er með hringlaga munsturbekk yfir axlirnar. NORDICPHOTOS/GETTY

Það finnst varla sá Íslendingur sem ekki á íslenska lopapeysu en þær hafa einnig verið mjög vinsælar meðal erlendra ferðamanna sem borga gjarnan háar fjárhæðir fyrir þær.