Úlfur Hans­son, tón­skáld og hljóð­lista­maður hefur hlaut í dag verð­laun Guthmann Musi­cal Instru­ment keppninnar en hann vann verð­launin fyrir Segul­hörpu, hljóð­færi sem hann hefur verið að þróa undan­farin ár, meðal annars fyrir styrk sem hann hlaut frá Rann­ís.

Keppnin er haldin ár­lega í Banda­ríkjunum þar sem einn lista­maður fær verð­launin, en um er að ræða virta há­tíð á sviði ný­sköpunar í tón­list.

New York Times hefur nú birt við­tal við Úlf vegna verð­launanna en úr­slitin voru kynnt í beinu streymi fyrr í dag. Meðal þeirra sem sátu í dóm­nefnd voru Dave Smith, stofnandi Sequenti­al Circuits, tón­listar­maðurinn DJ Spooky, Jay­son Dob­n­ey og Kaki King.

Hlotið ýmsar viðurkenningar

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Segul­harpan ratar í sviðs­ljósið en Björk Guð­munds­dóttir notaði til að mynda hörpuna í verk­efni sínu Cornucopia.

Sjálfur hefur Úlfur fengið ýmsar viður­kenningar fyrir list sína undan­farin ár en hann hlaut meðal annars verð­laun sem tón­skáld ársins í al­þjóð­legu keppninni International Rostrum of Composers fyrir verk sitt So very strange, árið 2013.

Þá hefur hann einnig hlotið Ný­sköpunar­verð­laun for­seta Ís­lands og verið til­nefndur til ís­lenski tón­listar­verð­launanna sem bjartasta vonin.