Frændsystkinunum og Mývetningunum Soffíu Kristínu Jónsdóttur og Stefáni Jakobssyni rann svo ákaft blóðið til stuðskyldunnar, að þau hafa endurvakið tónlistarhátíðina Úlfalda úr mýflugu, sem verður haldin með látum um helgina í sveitinni, þar sem hún hefur legið í dvala í áratug.

Heimatökin voru þó hæg þar sem Soffía Kristín er sjóaður umboðsmaður og tónleikahaldari, en Stefán er þekktastur sem söngvari Dimmu, sem spilar að sjálfsögðu á hátíðinni.

„Það eru ekki margar sem standa eftir,“ segir Soffía Kristín um framboðið á tónlistarhátíðum í sumar. „Mín rök fyrir þessu sem við höfum verið að gera hérna á sumrin með alls konar tónleikahaldi eru að við séum að gera eitthvað fyrir samfélagið og gefa til baka, en eins og staðan er í ár þá er náttúrlega ekki ætlast til þess að þetta verði að einhverri stórhátíð,“ segir Soffía og bendir á að eðli málsins samkvæmt sé miðafjöldinn takmarkaður.

„Þannig að við vonum bara að fólk sé skynsamt og njóti með okkur innan hæfilegra marka og eins og ég segi þá var markmiðið aldrei að gera þetta að einhverri stórri hátíð.“

Hélt sitt eigið partí

Stefán hafði nokkrar góðar ástæður þegar hann stofnaði til hátíðarinnar á sínum tíma. „Ég kom þessari tónlistarhátíð á laggirnar 2008, ásamt vinum mínum hérna í Mývatnssveit og öðrum meðlimum úr hljómsveitinni Thingtak.

Okkur langaði til að gera eitthvað skemmtilegt og koma okkur á framfæri sem tónlistarmönnum, en það var erfitt að komast inn á aðrar hátíðir eins og Eistnaflug, Aldrei fór ég suður og fleira í þeim dúr. Þannig að ég hugsaði bara að það er betra að stofna hátíð sem ég ræð hverjir spila og get þá bara leyft mér að spila á minni eigin hátíð,“ segir Stefán, sem ákvað að láta bara vaða.

Hann segir Hrafnkel Hallmundsson, gítarleikara Thingtak, eiga heiðurinn af nafni hátíðarinnar. „Hann kom með þetta nafn, Úlfaldi úr mýflugu, sem er bara mjög lýsandi fyrir það sem við vorum að gera. Byrja smátt og smá stækka þetta. Við gerðum þetta í þrjú ár. Allt í sjálfboðavinnu og ókeypis og mikil hugsjón.“

Stefán segir að hátíðin hafi eiginlega verið orðin of stór þegar hún lognaðist út af. „Menn þurftu bara að gera aðra hluti. Ég byrjaði náttúrulega í Dimmu og þurfti að einbeita mér að því. Og var kominn í háskóla og með fjölskyldu og þetta bara tók of mikinn tíma hjá öllum og var bara of erfitt. Þannig að þetta bara svona sofnaði.“

Stefán lætur að sjálfsögðu í sér heyra, ásamt félögum sínum í Dimmu.

Hiti í Jarðböðum

Þangað til núna að Stefán og Soffía frænka hans létu slag standa. „Við ákváðum að sækja um einhvern styrk sem við svo fengum, þannig að við neyddumst bara til þess að vekja Úlfaldann úr dvala og halda áfram með þessa hátíð og erum búin að púsla saman fínni dagskrá,“ segir Stefán.

„Við erum með tónleika uppi í Jarðböðum á föstudagskvöldinu með krassasig, Bríeti og Auði. Það má alveg borga sig inn á það,“ segir Stefán, og bendir á að fólk borgi sig einfaldlega inn í Jarðböðin og er þá komið með miða á tónleikana þar.

Tónleikarnir á laugardeginum eru með Stefáni Elí, Haka, Cell 7 og Dimmu, og það er hægt að fá upplýsingar um þá á Tix.is. Þú getur fengið frítt, en það væri mjög þakklátt ef þú myndir velja þann kost að kaupa miða,“ segir Stefán, en aðgangseyririnn teygir sig frá 0 krónum upp í 6.000.

„Sem kostar frá 1.500 upp í sex þúsund heilar og eitthvað þar á milli,“ skýtur Soffía inn í. „Það er hægt að velja hversu örlátur maður vill vera og þetta er gert, bæði svo við getum fengið einhvern pening og svo hitt að við þurfum að halda okkur innan við 500 manna fjölda út af svolitlu,“ heldur Stefán áfram.

Best í heimi

„Og besta veðrið á landinu verður akkúrat hér og besta veðrið í heiminum verður akkúrat hérna,“ heldur Stefán áfram og víkur að seinni tónleikunum, sem verða haldnir í flugskýli Mýflugs.

„Þetta verður geggjað,“ grípur Soffía fram í fyrir frænda sínum sem tekur heils hugar undir. „Svo verður þetta geggjað. Það eru veitingastaðir og gisting úti um allt. Bæði frábært tjaldsvæði og náttúrlega hótel. Við erum með flest hótel miðað við höfðatölu í heiminum og það eru eiginlega engar líkur á að þetta klikki.“

Föstudagsfólkið Auður, Bríet og krassasig, hafa dvalið í sveitinni um skeið og Soffía segir ekki hafa staðið á þeim að troða upp og þakka þannig fyrir sig.

Góður gestagangur

„Þau höfðu bara eiginlega frumkvæði að því sjálf. Gátu ekki beðið eftir að fá tækifæri til að spila hérna. Enda fannst þeim dásamlegt að vera hérna og vilja bara koma sem oftast.

Auðunn var einn í tvær vikur í Vogum 3 og vildi ekki fara og síðan voru þau þrjú á Geiteyjarströnd og voru þar í rúma viku og vildu heldur ekkert fara.“

Soffía segir að ef COVID hefði ekki komið upp hefði Auðunn átt að vera í Los Angeles. „Hann átti að vera að baða sig í sólinni þar, en hann fékk að baða sig á Costa del Mývatni í staðinn. Og sá sko ekki eftir því. Hann saknaði ekki mikils á meðan.

Hann kláraði tvær plötur á meðan hann var hérna, sem eiga eftir að líta dagsins ljós, og talar mikið um að lokatónninn hafi verið settur í þær á Mývatni.“

Soffía segist ekki vita annað en að Bríet sé „bara á fullu að semja tónlist og það er skemmtilegt að segja frá því að á meðan þau þrjú voru hérna á Geiteyjarströnd, sömdu þau lag saman og mér þætti nú ekki leiðinlegt ef þau myndu einhvern veginn taka það á föstudaginn. Ég veit ekki með það samt. En hver veit? Það væri ekki leiðinlegt.“

Nóg af spritti

Soffía hefur talsverða reynslu af tónleikahaldi, en viðurkennir fúslega að allt slíkt er mun flóknara í ríkjandi ástandi.

„Við erum allavegana búin að kaupa helling af spritti. Það er tilbúið. Það er klárt. Það er það fyrsta sem við græjuðum. Svo er bara, held ég aðalmálið, að sýna þessum fjöldatakmörkunum skilning og virðingu og gefa fólki færi á því að fá sér frískt loft…“.

„Það er nóg pláss sko. Við erum í flugstöð,“ botnar Stefán.


Úlfaldi úr mýflugu

Föstudagskvöld 3. júlí - Jarðböðin við Mývatn
Krassasig
Bríet
Auður

Laugardagskvöld 4. júlí Flugskýli Mýflugs við Reykjahlíðarflugvöll
Stefán Elí
HAKI
Cell7
DIMMA