Úkraínu var spáð 95 prósenta líkum á að komast áfram úr undankeppninni í gærkvöldi, á meðan líkur Íslands voru 38 prósent samkvæmt veðbönkum. Veðbankar telja þá 47 prósenta líkur á sigri Úkraínumanna á laugardagskvöld. Flosi Jón Ófeigsson, fyrrverandi formaður FÁSES, segir þá tölu gríðarlega háa, en þess séu þó önnur dæmi.

Flosi hafði tröllatrú á Systrunum þegar Fréttablaðið ræddi við hann fyrir undankeppni gærkvöldsins, en þær komust svo að sjálfsögðu áfram eins og frægt er orðið.

„Holland 2019 var með 51 prósents sigurlíkur á sínum tíma,“ segir Flosi og vísar til þess þegar Duncan Laurence kom, sá og sigraði með píanóballöðunni Arcade.

Hann segir æfingar hafa sitt að segja um spár veðbanka en í ár voru fyrstu æfingarnar haldnar fyrir luktum dyrum í fyrsta sinn.

Spár ekki nóg

Flosi rifjar upp framlag Rússlands árið 2016 sem spáð var sigri þar til Jamala, fulltrúi Úkraínu, steig á svið á sinni fyrstu æfingu. „Þá rauk það lag upp,“ útskýrir Flosi.

Hann nefnir górilluframlag Ítala frá 2017 sem spáð var sigri þar til kom að æfingum. „Þá urðu menn vonsviknir yfir framsetningunni á sviði og Portúgalinn Salvador Sobral skaust upp fyrir hann.“

„Annað dæmi er lagið Toy sem vann með Ísrael. Þar var Kýpur bara lengst uppi í veðbönkum áður en það kom að æfingum. Þær segja rosalega mikið. Þess vegna voru mjög margir hissa á því í ár að fyrstu æfingarnar voru lokaðar og engum blaðamönnum hleypt inn til að sjá æfingarnar.“

Ítalinn átti að vinna árið 2017 en sviðsetningin heillaði að lokum ekki.
Fréttablaðið/Getty

Af hverju?

„Ég veit það ekki nákvæmlega en mig grunar að atriðin hafi ekki verið nægilega klár og menn vilja kannski ekki að það fari einhverjar sögur af stað um að eitthvert atriði hafi verið hræðilegt og fokkað öllu upp þannig að þeir vilja nota fyrstu æfinguna í að prófa alls konar tæknileg atriði, ljós, hljóðin og eldtæknina og allt þetta sem er í boði.“

Flosi segir það hafa komið sér vel í ár, þar sem sólin á sviðinu hafi reynst biluð strax í upphafi. „Sem hefur verið erfitt fyrir þó nokkur lönd sem hafa nýtt tímann til að aðlagast og laga atriðið sitt.“

Vinna Úkraínumenn þetta?

„Mér þykir það mjög líklegt. Þetta er ekki mín tónlist en lagið er samt það gott að það hjálpar líka og vinnur vel með hinum pólitísku áhrifum. Þeir eru mjög líklegir til sigurs.“

Tröllatrú á Systrum

Þá segist Flosi hafa haft tröllatrú á Systrum. Þær hafi sjarmerað mannskapinn úti, verið flottar í viðtölum og komið frábærum boðskap áleiðis.

„Líka bara vegna einlæga flutningsins og sterka persónuleikans. Það er sterkt vopn, stundum þarf ekki hamstrahjól eða svaka ljósa-show, stundum þarf bara einlægni eins og Portúgalinn sannaði á sínum tíma.“

Veðbankar voru þess fullvissir um að Kýpur myndi sigra keppnina árið 2018, allt þar til Netta Barzilai steig á svið með framlag Ísrael.
Fréttablaðið/Getty