Ugla Stefanía Kristjönu­dóttir Jóns­dóttir, for­­maður Trans Ís­lands, fór í við­tal á banda­rísku sjón­varps­stöðinni Fox News á dögunum. Í við­talinu ræddi hún við Jes­se Watters um kynja­veislur sem snúast um að af­hjúpa kyn barna áður en þau fæðast. „Þetta var alveg fá­rán­leg lífs­reynsla og eftir á að hyggja var þetta við­tal frekar til­gangs­laust,“ segir Ugla á Twitter.

At­hafna­konan segist þó geta horft til baka á við­talið og hlegið yfir þeirri stað­reynd að hún hafi komið fram á upp­á­halds sjón­varps­stöð Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta.

Hefði aldrei dottið þetta í hug

Að sögn Uglu hefði henni aldrei grunað að hún myndi ein­hvern tímann fara í við­tal á téða sjón­varps­stöð. „Venju­lega hefði ég hafnað svona þar sem ég veit að Fox News er ein af í­halds­sömustu sjón­varps­stöðvum í Banda­ríkjunum og líka vegna þess að ég vissi að þau myndu gera sitt besta til að mála mig upp sem þrætu­gjarna, móðgaða og „trig­geraður frjáls­lyndis­sinni,“ sagði Ugla.

Hún á­kvað þó að ríða á vaðið þar sem hún sá mögu­leika á því að geta breytt hugar­fari á­horf­enda. „Jafn­vel þó að það væru ör­fáir eða bara ein einasta manneskja.“ Ugla vildi gera til­raun til að fá fólk til að hugsa á annan hátt um áður­nefndar kynja­veislur þar sem þær ýttu undir eitraðar staðal­í­myndir kynjanna.

Foreldrar nota fjölbreyttar leiðir til að afhjúpa kyn barna sinna en vinsælt er að sprengja blöðrur og sjá hvort inni í blöðrunni sé bleikt eða blátt konfettí sem segir til um kyn barnsins.
Fréttablaðið/Getty

Reyndi að af­vega­leiða um­ræðuna

Í við­talinu reyndi Jes­se Watters þó nokkrum sinnum að af­vega­leiða um­ræðuna og fá Uglu til að bregðast við stað­hæfingum líkt og „strákar eru bara strákar og stelpur eru bara stelpur.“ Það hafði þó lítil á­hrif þar sem Ugla leiddi um­ræðuna aftur að fá­rán­leika þess að halda veislurnar yfir höfuð sér­stak­lega í ljósi þess hve margir hafa slasast eða jafn­vel dáið í slíkum veislum.

„Það er aug­ljós­lega fullt af hlutum sem ég hefði viljað gera á annan hátt eftir á en við­töl eru sjaldan eins og maður býst við.“ Ugla vonar þó að ein­hver hafi tekið orð hennar til sín og hugsi sig tvisvar um áður þau haldi upp á kynja­veislu. Hér fyrir neðan má sjá viðtalið í heild sinni.