Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ugla Hauksdóttir mun leikstýra tveimur þáttum í nýrri þáttaröð á streymisveitu Amazon. Þættirnir heita The Power og eru byggðir á samnefndri bók eftir breska rithöfundinn Naomi Alderman. Bókin fjallar um heim þar sem konur verða hið sterkara kyn þegar þær þróa með sér þann kraft að geta gefið rafstuð.

Greint var frá þessu í frétt Deadline. Reed Morano, sem leikstýrði hinum geysivinsælu þáttum The Handmaid's Tale, leikstýrir fyrstu þáttum The Power. Rithöfundurinn Alderman hefur áður unnið í samvinnu við Margaret Atwood, höfund The Handmaid's Tale en hún var nokkurs konar leiðbeinandi fyrir Alderman.

Það var mér ómetanlegt að fá að stíga mín fyrstu skref á Íslandi.

„Reed Morano er einn flottasti kvenleikstjórinn í bransanum. Það er ekki leiðinlegt að fylgja henni eftir,“ segir Ugla í samtali við Fréttablaðið.

„Naomi Alderman hefur skapað merkilegan heim í bók sinni sem gaman verður að túlka yfir á myndrænt form.“

Amazon mun gefa út þættina á streymisveitu sinni en það er breska framleiðslufyrirtækið Sister Pictures sem framleiðir The Power. Fyrirtækið framleiddi einnig þættina Chernobyl og hafa því einnig unnið með Hildi Guðnadóttur tónskáldi.

„Sister Pictures er brautryðjandi í sjónvarpsþáttagerð og því ekki amalegt að vera komin í samstarf við þau.“

Meðal leikara sem koma fram í þáttunum eru Leslie Mann, Auli’i Cravalho, John Leguizamo, Toheeb Jimoh, Ria Zmitrowicz, Halle Bush, Heather Agyepong, Nico Hiraga og Daniel Vega.

Fékk viðtal eftir Ófærð

Ugla hefur verið búsett í New York í 15 ár en hún lauk leikstjórnarnámi á meistarastigi árið 2016 frá hinum virta Columbia háskóla.

Eftir að hún kláraði að leikstýra tveimur þáttum af Ófærð 2, hafði umboðsskrifstofan hennar í Los Angeles samband og sagði henni frá því að hún hefði verið boðin í viðtal hjá Amazon. Viðtalið snerist um seríuna Hönnu, en það var vinsælasta sería Amazon á síðasta ári.

„Það var alveg magnað að fá tækifæri til að hitta framleiðendurna. Viðtölin þrjú sem tóku við gengu vel fyrir sig og að lokum var ég ráðin til að leikstýra þremur af átta þáttum í annarri seríu,“ segir Ugla en hún var að enda við að leikstýra þeim þáttum nú rétt fyrir jól. Hún hefur því verið búsett í 7 mánuði í London vegna Hönnu.

„Það var mér ómetanlegt að fá að stíga mín fyrstu skref á Íslandi. Það undirbjó mig vel fyrir þá miklu ábyrgð sem fylgir því að leikstýra stórum sjónvarpsseríum á borð við HANNA og The Power.“

Leslie Mann, John Leguizamo, Auli’i Cravalho.
Fréttablaðið/Getty images

Ugla segir að ferlið við að taka upp Hönnu hafi verið mjög svipað Ófærð. Undirbúningsferlið hafi þó verið lengra og auk þess fékk hún að velja sína tökustaði og helsta samstarfsfólk.

„Það var mjög gaman að fá að taka viðtöl við og kynnast virkilega hæfileikaríku fólki í bransanum.“

Tökur Hönnu voru í einu holli og var því Ugla á setti í heila tvo mánuði. Hún segir að það hafi verið krefjandi en einnig magnað að finna hvað framleiðendurnir báru mikið traust til hennar.

„Enda lögðu þeir mikið upp úr að ráða leikstjóra með listrænt auga og treystu minni sýn.“

Amazon voru greinilega mjög ánægðir með leikstjórn hennar í Hönnu því Uglu var boðið að vera með í The Power í beinu framhaldi. Tökur á The Power hefjast í febrúar en Ugla byrjar ekki fyrr en í mars. Þá verður hún á flakki um allan heim að vinna að þáttunum.

Noami Alderman ásamt Margaret Atwood
Fréttablaðið/Getty images