Sagafilm og sænska framleiðslufyrirtækið LittleBig Productions vinna saman í þróa og framleiða leikna sjónvarpsþáttaröð byggða á Tyrkjaráninu.

Langflestir Íslendingar þekkja eða kannast við söguna um Tyrkjaránið sem átti sér stað árið 1627 þegar sjóræningjar frá norðvestur Afríku rændu um 400 manns frá Grindavík, Vestmannaeyjum og Austfjörðum og seldi það í þrældóm í Barbaríinu.

Þættirnir munu fjalla um mæðgurnar Gunnu og Grímu sem verða aðskila á þrælamarkaði í Marokkó og þurfa að finna ólíkar leiðir til að lifa af í framandi menningarheimi. Í tilkynningu frá Sagafilm segir að að sagan muni snúast um valdabaráttu, frelsissviftingu, heimilis- og ástvinamissi í tengslum við lítt þekkta mansalssögu Evrópu. Áhorfendur eigi von á spennandi sögu og sterkri frásögn um ást, lífsvilja, hefnd og eflingu sterkrar vonar.

Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, segir söguna hafa mjög sterka alþjóðlega skírskotun og ætti því vonandi að vera einfalt að fjármagna svona stórt verkefni. Kjartan Þór Þórðarson, framleiðandi hjá Sagafilm Nordic, tekur undir með Hilmari og segir verkefnið eiga heima ekki bara á Íslandi heldur einnig fyrir utan landssteinana.

Þau Anna G. Magnúsdóttir, Anders Granström og Herbert Gehr eiga hugmyndina að þáttunum en verkefnið hefur verið í þróun í nokkur ár og fer handritsvinna í gang á næstu mánuðum með fleiri handritshöfundum. Anna G. segir markmiðið að segja áhugaverða og grípandi sögu um örlög þeirra sem voru tekin með valdi frá heimilum sínum.

„Sögulegir atburðir eru hafðir sterklega til hliðsjónar en dramatískir þættir frásögunnar hafðir í fyrirrúmi. Það að fá Sagafilm sem samstarfsaðila í þessu verkefni gerir okkur kleift að efla þróunina og koma henni á næsta stig. Það er mikilvægt að varpa ljósi á þessa mikið til gleymdu atburði og ekki síst mikilvægt fyrir Íslendinga að fá sögur um samlanda sína og aðstæður þeirra á þessum ótrúlega kafla í Íslandssögunni.“ segir Anna G.