Rétt eins og í hefðbundinni matargerð landans, þar sem ólykt er ein af rótgrónum hefðum okkar, þá eru þær fleiri sem sprottnar eru úr misskemmtilegum tímum Íslandssögunnar. Bíður einhver í ofvæni eftir sjómannadeginum eða fullveldisdeginum ár hvert?

Þessir leiðinlegu hátíðadagar hafa skolað landanum á erlendar fjörur í leit að skemmtilegri hefðum, á borð við Valentínusardag og títtnefnda hrekkjavöku. Eina leiðin til að anna eftirspurn eftir skemmtilegri hátíðadögum er nefnilega fólgin í því sem Íslendingar gera best – að skella sér í víking og ræna menningu annarra þjóða.

Þakkargjörðin (Bandaríkin)

Í allt of mörg ár hafa Íslendingar horft upp á Bandaríkjamenn á skjánum fara með borðbæn og borða fylltan kalkún. Við getum ábyggilega fundið eitthvað sem við getum verið þakklát fyrir, eins og til dæmis að hafa lifað móðuharðindin af. Það er algjör óþarfi að kafa of djúpt ofan í söguna að baki bandarísku þakkargjörðinni – er ekki ábyggilega bara verið að fagna því að pílagrímarnir og indjánarnir hafi verið svona ofboðslega góðir vinir?

Ó, hvað það væri nú gaman að geta farið með borðbæn, alveg eins og í sjónvarpinu!
Fréttablaðið/Getty

Kjötkveðjuhátíðin (Brasilía)

Góð aðsókn Íslendinga á Hinsegin daga eru annað hvort gott dæmi um aukið umburðarlyndi okkar sem þjóðar, eða þá hvað við elskum skrúðgöngur. Ef spurt er um flottustu skrúðgöngu heims er svarið venjulega kjötkveðjuhátíðin í Ríó sem er stútfull af samba dansi, búningum og háværari tónlist. Við getum stillt henni upp í lok janúar til að kveðja þorramatinn.

Bless, þorramatur!
Fréttablaðið/Getty

Holi (Indland)

Við erum þegar kominn með annan fótinn inn á indversku litahátíðina Holi nú þegar Litahlaupið er orðið jafnvinsælt og það er. Það er samt algjörlega ótækt að það þurfi að hlaupa eitthvað til að fá skammt af litapúðri - það er miklu nær að heimfæra bara þennan aldagamla sið hindúa.

Indversk litagleði Holi gæti, ef vel er gáð, smellpassað í íslenska grámygluna.
Fréttablaðið/Getty

Kínverska nýárið

Talandi um skrúðgöngur, af hverju hefur kínverski drekabúningurinn aldrei haslað sér völl hér á Íslandi? Það er löngu kominn tími á að við fögnum því sem sameinar kínverska menningu við norræna goðafræði: langir drekar.

Það er löngu tímabært að drekinn í skjaldarmerkinu fái sinn hátíðisdag.
Fréttablaðið/Getty

Dagur hinna dauðu (Mexíkó)

Það væri nú aldeilis huggulegt að geta fengið afsökun til að dútla við svona fínar hauskúpur og mála sig framan oftar en bara á hrekkjavöku. Svo er þetta víst svona dagur þegar maður minnist þeirra látnu og vottar þeim virðingu sína, eða eitthvað.

Dagur hinna dauðu hangir saman við Hrekkjavökuna og því rakið dæmi að flytja hann inn líka.
Fréttablaðið/Getty