Á­hyggjur eig­enda Face­book af því að sam­fé­lags­miðillinn endi sem Boo­mer­bók, með vísan til eftir­stríðs­ára­kyn­slóðarinnar sem kennd er við „baby boo­mers“, virðast á rökum reistar ef marka má ung­liðann Jón Bjarna Snorra­son og Önnu Kristjáns­dóttur, full­trúa þeirra sem komnir eru til vits og ára­tuga á sam­fé­lags­miðlum.

Upp­ljóstrarinn France Haugen lak ný­lega gögnum sem sýna að for­svars­menn Face­book hafa miklar á­hyggjur af því hversu ungu fólki þykir sam­fé­lags­miðillinn hall­æris­legur og fari því hall­oka í sam­keppninni við til dæmis Twitter og TikTok. Betur má því ef duga skal þótt ein­hverja huggun gegn þessum harmi megi finna í því að Insta­gram, sem er í eigu Face­book, þykir enn nettur sam­fé­lags­miðill.

Vin­sældirnar fjara út

„Ekki mikil sko,“ segir Jón Bjarni Snorra­son, for­maður nem­enda­fé­laga Borgar­holts­skóla og einn vin­sælasti tístari landsins, þegar hann er spurður út í Face­book-notkun sína. Hann tekur þó fram að Face­book sé þrátt fyrir allt fram­halds­skóla­nemum enn mikil­væg.

„Það eru þessar plangrúppur fyrir nem­enda­fé­lög og kannski við­burði. Annars eru allir með Face­book­reikninga náttúru­lega en það er enginn að stunda Face­book. Það er enginn að skrifa status,“ segir Jón Bjarni léttur í bragði. Hann segir Face­book aðal­lega snúast um fjöl­skylduna, mömmu og pabba.

„Face­book er mjög form­legt fyrir nú­tíma­ung­ling og miklu form­legra en til dæmis Twitter þar sem þú bombar til dæmis ein­hverri kúka­pælingu inn bara,“ segir hann og hlær. Enginn skrifi þar langar færslur „sem enginn les“, eins og Jón Bjarni orðar það glettinn.

Kúkapælingar fara ekki á Facebook að sögn Jón Bjarna. Þær eiga betur heima á Twitter.
Fréttablaðið/Getty

„Helsti skoðana­miðillinn er Twitter en Face­book Mess­en­ger er mjög not­hæft,“ segir Jón Bjarni um spjall­for­ritið sem fylgir Face­book. „Mess­en­ger-grúppur og svona því það er svo létt að hafa sam­band í gegnum Mess­en­ger.“ Hann leggur á­herslu á að vin­sældir sam­fé­lags­miðla séu hverfular og veit ekki hversu mikla huggun má finna í vin­sældum Insta­gram.

„Það er alveg að fjara út samt. Ég verð eigin­lega að segja það. Face­book er sterkara til dæmis, alla­vega á mennta­skóla­árum. Allir mennt­skælingar eru virkir á Face­book út af þessari þörf,“ út­skýrir Jón Bjarni og bendir á fyrr­nefnt nota­gildi Face­book þegar kemur að þægi­legum sam­skiptum og undir­búningi við­burða.

Hann er því ekki til­búinn til að fallast á það að Twitter sé fram­tíðin. „Njaa, sko, það var mjög vin­sælt á sínum tíma hjá þessum sama aldri, en það fjarar út og kemur svo aftur. Fattarðu pælinguna?“

TikTok er svo enn annar hand­leggur, eins og Jón Bjarni bendir á að­spurður: „TikTok er náttúru­lega ekki spjall­for­rit, það er bara „con­tent“. Það er að segja, þangað dælir fólk ein­fald­lega mynd­böndum og öðru efni á öðrum for­sendum. „Það er ó­geðs­lega vin­sælt og létt að vera fastur í því. Já, TikTok er vin­sælasta for­ritið, létti­lega.“

Mikilvægi Facebook fyrir íslenska framhaldsskólanema er fólki hjá Facebook eflaust huggun gegn harmi.
Fréttablaðið/Getty

Leiðin­legasti þáttur í heimi

Anna Kristjáns­dóttir býr á Tenerife þaðan sem hún greinir frá dag­legu lífi sínu á Face­book af kappi og festu. Hún mælir fyrir hönd þeirra sem eru löngu komin af mennta­skóla­aldri og er sam­mála Jóni Bjarna: Face­book er hall­æris­legt hjá unga fólkinu.

„Það er rétt,“ segir Anna um hall­æris­leg­heit Face­book sem hún notar mest þótt hún sé einnig á Insta­gram. „Og ég er með að­gang að Twitter en mér finnst það bara ekkert spennandi, mér finnst það of „korrekt“ pólitískt.“

„Ég nota hann ekki, eða sára­lítið,“ segir Anna Kristjáns um Twitter forritið vinsæla.
Fréttablaðið/Getty

Hún segir 280 stafa tak­markanir þó ekki hafa nein á­hrif á Twitter­áhuga­leysið. „Vegna þess að maður gerir sér grein fyrir því að þetta á að vera stutt.“ Tenerife-pistlarnir hennar séu um ein blað­síða og henti full­kom­lega á Face­book. Hún noti Twitter lítið sem ekkert.

„Ég nota hann ekki, eða sára­lítið,“ út­skýrir Anna. Hún bætir við að hún sé lítt hrifin af Twitterskeyta­sendingum al­mennt og tekur eld­fimt dæmi.

„Ég má kannski ekki segja þetta svona beint en það er á­kveðinn þáttur á föstu­dags­kvöldum í Ríkis­sjón­varpinu sem gengur stundum undir nafninu Twittersam­fé­lagið. Við skulum ekki nefna hvaða þáttur það er en hann er leiðin­legasti sjón­varps­þáttur í heimi,“ segir Anna og hlær.

Að­spurð segist hún telja lík­legt að á Face­book megi finna breiðari þver­skurð þjóðarinnar en á Twitter. „Ég hugsa það nú. Það er líka af því að þótt yngra fólk sé sko líka inni á Face­book þá nota þau það ekki eins mikið.“

Hún bendir á að What­sapp sé gríðar­lega vin­sælt spjall­for­rit á Tenerife og það noti hún meðal annars til sam­skipta við lækna. Þá tekur hún fram að hún haldi sínum pólitísku skoðunum út af fyrir sig á Face­book. „Ég nota Face­book ekki mikið fyrir pólitískt þras. Ég forðast það. Þar væri kannski Twitter heppi­legra.“

Anna Kristjáns er meira í því að segja frá lífi sínu á Facebook frekar en að deila pólitískum skoðunum sínum.
Fréttablaðið/Getty