Mikil umræða hefur skapast í kringum ásakanir gegn tónlistarmanninum Auðunni Lútherssyni, einnig þekktur sem Auður, á samfélagsmiðlum síðastliðna daga og þá sérstaklega á miðlinum Twitter.

Líkt og Fréttablaðið hefur fjallað um hefur Auðunn verið sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn ungum stúlkum og er von á yfirlýsingu frá tónlistarmanninum bráðlega.

Twitter notendur hafa síðastliðna daga kallað eftir því að fjallað verði um málið á fjölmiðlum landsins og gagnrýnt þögnina sem hefur ríkt um málefnið. Margir hafa lýst yfir stuðningi með þolendum, meðal annarra tónlistarkonurnar Hildur og Karó, og hafa aðrir þjóðþekktir einstaklingar bent á að það geti verið erfitt að stíga fram sem þolandi hjá svo landsþekktum listamanni. 

Ásakanirnar eru nú ræddar innan Þjóðleikhússins þar sem Auður er einn þeirra sem semur tónlistina í uppsetningu Rómeó og Júlíu. Þá fjarlægðu jafnréttissamtökin UN Women á Íslandi allt markaðsefni þar sem Auður kom fram.

Síðastliðinn mánuð hefur Auður misst um eitt þúsund fylgjendur á Instagram þar sem um 11.800 manns fylgja honum nú. Um 370 manns hættu að fylgja honum á föstudaginn, 200 á laugardag og 100 í gær.