Twitter not­endur virðast ekki par sáttir með yfir­lýsingu tón­listar­mannsins Auðuns Lúthers­sonar, þekktur sem Auður, ef marka má við­brögð á sam­fé­lags­miðlinum.

Auðunn birti í kvöld færslu þar sem hann baðst af­sökunar á því að hafa gengið yfir mörk konu árið 2019 og kvaðst hann hafa reynt að axla á­byrgð. Tón­listar­maðurinn tók einnig fram að orð­rómar sem hafa verið á kreiki um hann séu ó­sannir.

„Undan­farnar vikur hafa hins vegar flökku­sögur um al­var­lega af­brot farið á flug á Twitter sem eiga sér ekki stoð í raun­veru­leikanum. Ég vona að flestir sjái að svo sé,“ skrifaði Auðunn.

Mörg hundruð manns hafa látið sér líka við færslu Auðuns, þar á meðal þjóð­þekktir ein­staklingar á borð við Bríeti, Krassa­sig, Mr. Sillu, Gísla Martein Baldurs­son, Guð­mund Felix­son og fleiri.

Margir virðast þó vera á því máli að af­sökunar­beiðnin hafi ekki verið nógu góð og skömmu eftir að færslan birtist á Insta­gram var lokað fyrir at­huga­semdir við færsluna. Ein­hverjir slá textanum upp í grín þar sem hann þykir vera í takt við aðrar opin­berar af­sakanir en aðrir, meðal annars tón­listar­konan Hildur, benda á að margt sé enn ó­út­skýrt í málinu.