Guðni Bergs­son, for­maður Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, hefur sagt af sér sem for­maður í kjöl­far frá­sagna af meintu of­beldi leik­manna ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu.

Þór­hildur Gyða Arnars­dóttir, sem steig fram í við­tali og greindi frá of­beldi sem hún upp­lifði af hendi ó­nafn­greinds lands­liðs­manns, segir þetta vera byrjun en kallar þó eftir því að öll stjórn KSÍ segi af sér.

Fjöl­margir net­verjar á Twitter fagna á­kvörðun Guðna að stíga til hliðar. Fjöl­miðla­konan Þóra Tómas­dóttir segir þetta vera al­gjöra við­horfs­breytingu í sam­fé­laginu.

„Á­byrgt af Guðna að stíga til hliðar og meira að segja eftir­sjá af honum,“ skrifar hún.

Þó finnst sumum ekki vera nógu langt gengið og kalla eftir af­sögn fleiri en formannsins. María Lilja Þrastar­dóttir, bar­áttu­kona og fram­bjóðandi Sósíal­ista­flokksins, furðar sig á því að for­maður KSÍ hafi einn verið látinn taka á­byrgð á málinu og notandinn @hjal­ti­litli skrifar meðal annars „Þetta er ekki búið“ og bendir á að Þor­steinn Gunnars­son, borgar­ritari, sé einnig í stjórn KSÍ.

Ljóst er að margt er enn ó­upp­gert innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar en KSÍ sendi frá sér yfir­lýsingu í kvöld þar sem þau kveðjast trúa þol­endum og biðja þá inni­legrar af­sökunar.