Hin norska Maja Lunde var einn af gestum Bókmenntahátíðar í Reykjavík en bók hennar Blá er nýkomin út á íslensku í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Maja, sem er fjölmiðlafræðingur að mennt, hefur skrifað tólf barnabækur. Sú nýjasta er Snøsøsteren (Snjósystirin) sem sló í gegn í heimalandinu, var tilnefnd til ARK barnabókaverðlaunanna árið 2018 og útgáfurétturinn hefur verið seldur um víða veröld. Fyrsta bók hennar fyrir fullorðna Biens historie (Saga býflugnanna) kom út árið 2015 varð verðlaunabók og hefur verið þýdd á yfir 35 tungumál og er fyrsta bókin í fjórleik hennar þar sem umhverfismál liggja til grundvallar. Blá er bók númer tvö í flokknum.

Sögusvið bókarinnar er annars vegar árið 2017 þegar eldri kona, Signe, heimsækir æskustöðvar sínar í Noregi þar sem umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir blasa við. Árið 2041 er Davíð er flótta norður eftir Frakklandi með lítilli dóttur sinni, en endalausir þurrkar hafa hrakið þau að heiman. Sögurnar tvær tengjast síðan á snjallan hátt.

Byrjaði ekki með boðskap

Virkjanir og áhrif loftslagsbreytinga eru viðfangsefni bókarinnar og þar er vatn og mikilvægi í forgrunni. Höfundi tekst að koma erindi sínu til skila á áhrifamikinn hátt án þess að predika. „Í byrjun sá ég fyrir mér tvær myndir,“ segir Maja Lunde. „Sú fyrri var af ungum manni fótgangandi í miklum þurrkum í Suður-Evrópu í nánustu framtíð. Ég vissi að hann væri einn en ég vissi ekki mikið meira, annað en að hann ætti eftir að finna bát. Spurningarnar sem þessi mynd kveikti í huga mér voru: Hvaðan kemur hann? Hvað gerðist? Hvernig kemur báturinn við sögu? Hin myndin var af eldri konu sem stendur við foss sem hún tengist sterkum böndum. Þetta er mjög reið kona. Ég vissi ekki mikið meira en fékk mikinn áhuga á þessari reiðu og sterku konu.

Mig langaði til að vita meira um þetta fólk. Ég gerði mér grein fyrir því að sögurnar snerust báðar um vatn og að það yrði sennilega þema bókarinnar. Ég fór að grufla í lífi persónanna og raddir þeirra urðu mjög sterkar. Smám saman fór ég að kynnast þeim. Þannig byrjaði sagan, hún byrjaði ekki með boðskap. Ef ég hefði boðskapinn í forgrunni þá væri ég stjórnmálamaður og það er ég ekki. Ég er rithöfundur.“

Blá hefur, ásamt Sögu býflugnanna, verið flokkuð sem loftslagsskáldskapur. „Ég kalla bækurnar skáldverk, svo er lesandans að túlka þær að vild. Það má til dæmis vel lesa Blá sem ástarsögu og hún er líka saga um að fullorðnast, barnæskan mótaði til dæmis Signe, eldri konuna mjög mikið og bókin fjallar líka um reiðina,“ segir Maja.

Lifir sig inn í söguna

Þessa dagana er hún að ljúka við að skrifa þriðju bókina í fjórleiknum sem fjallar um dýr í útrýmingarhættu og gerist bæði í fortíð og framtíð. Maja segir að í framtíðarkaflanum muni lesendur hitta aftur persónu úr Blá. Fjórða bókin sem hún ætlar síðan að skrifa mun fjalla um plöntur.

Blá er spennandi skáldsaga með brýnt erindi og um leið afar læsileg og líkleg til að falla stórum hópi lesenda í geð. „Ég hef unnið sem handritshöfundur og áhrif þaðan rata örugglega í skáldverkin,“ segir Maja. „Þegar ég skrifa ímynda ég mér að ég sé í aðstæðunum sem ég er að lýsa og ég upplifi tilfinningar persóna. Ég lifi mig mjög inn i söguna sem ég er að segja og vonandi skilar það sér til lesanda.“

Spurð hvort hún haldi að jörðin verði sá nöturlegi staður sem lýst er í þeim köflum bókarinnar sem gerast árið 2041 segir hún: „Ég vona svo sannarlega ekki en ég óttast það. Ég reyni að vera bjartsýn en á hverjum degi verð ég óttaslegnari. Rithöfundar skrifa um það sem þeim finnst mikilvægt og þeir hafa áhuga á. Umhverfismál eiga hug minn og þess vegna verða þessar sögur til.“