„Tvær langdregnustu fréttir áratugarins, annars vegar klúðrið í Borgarnesi og hins vegar heimsfaraldur Covid-19, voru hitamál í vikunni, líkt og aðrar vikur,“ segir Ólöf Skaftadóttir, annar ritstjóra Innherja. „Ekki er gott að segja hvernig sóttvarnalæknir komst að þeirri niðurstöðu að sennilega yrðu Íslendingar rafmagnslausir ef þeir undirgengjust ekki þær takmarkanir á athafnafrelsi sem honum hugnast best.

Rafmagnslaus skynsemi

Hann lét hafa eftir sér að allt sem við byggjum líf okkar á, meðal annars rafmagnsflutningar, myndu lamast vegna útbreiddra veikinda. Þar kom það. Ekki hafa enn borist fregnir af rafmagnsleysi hjá Svíum síðustu mánuði, þrátt fyrir takmarkalaust samfélag sem byggir á frelsi einstaklingsins og heilbrigðri skynsemi.

Hugmyndafræðilegt handapat

Ný ríkisstjórn virðist síðan ekki ætla að halda hvíldardaginn heilagan en fyrirhugað er að kynna nýjan stjórnarsáttmála á sunnudaginn. Ráðherrakapallinn verður forvitnilegur og ekki síst í hvaða hugmyndafræðilegu höndum heilbrigðiskerfið lendir.

Sjálfstætt listaverk

Kaupglaðir Íslendingar á netinu hafa ekki látið sitt eftir liggja en Innherji greindi frá því að vefverslunin Boozt hefði selt fyrir tæpan milljarð hérna síðustu fimm mánuði.

Blaðamannaverðlaun vikunnar fara svo klárlega til hvers þess sem sér um samsettar myndir á DV. Myndin af Degi borgarstjóra af tilefni Mexíkóferðar hans, með sombrero og sólgleraugu, er sjálfstætt listaverk.“