Það voru 33 tískuhönnuðir sem sýndu haust- og vetrartísku sína í París, margir þeirra þekktustu. Þarna mátti meðal annars sjá Dior, Armani, Balenciaga, Jean Paul Gaultier og marga fleiri. Sýningarstaðir voru Musée Rodin þar sem Dior sýndi hátísku sína, stórverslunin La Samaritaine, Hôtel de la Marine, sem er nýuppgert og listasafnið Bourse de Commerce.

Glæsileg buxnadragt frá Dior.

Maria Grazia Chiuri, sem er listrænn hönnuður hjá Dior, vildi draga fram mikilvægi vandaðrar vefnaðarvöru í hausttískunni. Sýningarrýmið var þakið útsaumuðum myndum úr silki. Útsaumurinn var handunninn á Indlandi og tók marga mánuði. Hann var unninn hjá Chanakya Craft skólanum sem er sjálfseignarstofnun með það að markmiði að styrkja konur í nærsamfélaginu til listsköpunar. Sérstaklega er horft til útsaums fyrri tíma, en útsaumurinn er innblásinn af tímaleysi og nærgætni. Skólinn hefur starfað með helstu tískuhúsum í Evrópu.

Önnur tvíddragt.

Það vakti athygli að tvídefni léku stórt hlutverk í hönnun Dior fyrir haust og vetur. Tvídyfirhafnir og -dragtir sem eru kvenlegar, sjarmerandi og pínu gamaldags. Tvídhattar voru einkennandi á sýningunni og minntu ögn á hjálma sem hestamenn nota. Þar að auki voru sýndir glæsilegir silkisamkvæmiskjólar.

Ljós ullarkápa með fallegu sniði.

Maria Grazia er fyrsta konan til að stjórna Dior í sjötíu ára sögu fyrirtækisins. Hún er sögð koma inn með ferska vinda og leggur mikla áherslu á notagildi vörunnar og endingu. Maria er sögð blanda saman skapandi list og tísku. Hún sækir innblástur í sögulegar tilvísanir og feminísk gildi. Hún horfir til nútímakonunnar, en ekki þeirrar konu sem fyrirtækið byggði stíl sinn á í upphafi. Fötin eiga að endurspegla líf nútímakonu sem er útivinnandi og á framabraut. Sjálf klæðist hún oftast svörtum fötum og segist vera af þeirri kynslóð kvenna sem elskar að vera svartklædd. Maria er fædd í Róm árið 1964 og hafði áður starfað hjá Pierpaolo Piccioli, sem er listrænn hönnuður hjá Valentino.

Það er gaman að skoða myndirnar frá haust- og vetrartísku Dior því hönnunin nær án nokkurs vafa til margra kvenna.

Kápurnar eru mismunandi, en eiga það sameiginlegt að vera víðar.
Stutt kápa með trefli í stíl og ?auðvitað hatti. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Ein önnur útfærslan á tvídkápu.
Glæsileg tvídkápa frá Dior.