Þó að aðeins fimmtán mínútur hafi liðið á milli fæðingar Alfredo Antonio Trujillo og systur hans, Aylin Yolanda Trujillo, höguðu örlögin því þannig að þau fæddust á sitthvoru árinu.
Fatima Madrigal, móðir barnanna, missti legvatnið á gamlárskvöld og fór beint upp á Natividad-sjúkrahúsið í borginni Salinas í Kaliforníu. Klukkan 23:45 að staðartíma kom Alfredo í heiminn og þegar klukkan sló 12 á miðnætti og nokkrum sekúndum betur kom Aylin í heiminn.
Í frétt People segir Fatima Madrigal það vissulega skrýtna tilhugsun að eiga tvíbura sem fæddir eru sitthvorn daginn og á sitthvoru árinu þar að auki.
Fæðingarlæknirinn Ana Abril Arias var viðstödd fæðinguna og segir hún atburð sem þennan afar sjaldgæfan. Þetta sé að minnsta kosti ein eftirminnilegasta fæðing sem hún hefur tekið þátt í.
Það var þó fyrir mestu að fæðingin gekk vel fyrir sig og eru Alfredo og Aylin við góða heilsu eins og móðir þeirra. Systkinin eru nú komin heim með foreldrum sínum sem eiga fyrir tvær stúlkur og einn dreng.