Lista­maðurinn Róbert Risto Hlyns­son, einnig þekktur sem Poddi Podd­sen, notaði ó­hefð­bundið hrá­efni við gert út­skriftar­verk síns, sem er nú til sýnis á út­skriftar­sýningu Lista­há­skóla Ís­lands í Hafnar­húsinu.

„Skúlptúrarnir eru gerðir úr kúknum mínum og verkið heitir Sjálfs­mynd úr sjálfum mér,“ segir Róbert.

Um er að ræða sér­lega sjálf­bæra list í formi sex fígúra sem minna svo­lítið á pipar­köku­kalla. „Kúkurinn er mikið unninn svo hann er lyktar­laus og gæti í raun verið hvað sem er,“ út­skýrir Róbert. „Ég pússaði sumar þeirra þannig þeir litu svo­lítið út eins og hraun eða trjá­kvoða.“

Fréttablaðið/Anton Brink

Vekur blendnar til­finningar

Róbert segir suma sýningar­gesti þó vera feimna við að nálgast verkin og þá hafi aðrir kúgast þegar í ljós kemur úr hverju listin er. „Ein­hverjir hafa sagt mér að þeim verði flökurt að horfa á þetta eða að til­hugsunin um að þetta sé kúkur úr mér láti þeim líða ó­þægi­lega.“

Lík­legt er þó að margir gestir hafi skoðað verkin án þess að gera sér grein fyrir því úr hverju þau væru þar sem textinn var í nokkurri fjar­lægð frá sýningar­kössunum.

Listin hefur þó ó­neitan­lega heillað ein­hverja þar sem Róbert hefur þegar selt eitt verkanna. „Það er frekar kúl að geta selt sinn eigin kúk,“ viður­kennir lista­maðurinn.

Á­huga­samir geta enn fest kaup á hinum en ekki er þó hægt að tryggja að tví­bakaði kúkurinn haldi formi sínu um ó­komna tíð. „Ég þarf kannski að gera samning við kaup­endur þar sem fram kemur að ég taki ekki á­byrgð á mögu­legri breytingu skúlptúrsins,“ segir Róbert hlæjandi.

Fyndið og ó­geðs­legt

Lista­verkið var inn­blásið af inn­sæinu að sögn Róberts. „Eða krakkanum inni í mér, sem finnst kúkur fyndin. Fólki finnst kúkur al­mennt frekar fyndinn og líka frekar ó­geðs­legur.“

Hrá­efnið hafi verið for­vitni­legur efni­viður og vildi Róbert spreyta sig sjálfur með það eftir að hafa heyrt um aðra lista­menn sem notuðust við hrá­efnið. „Mig langaði bara að sjá hvað myndi gerast. Stundum þegar maður fær hug­mynd verður maður bara að fram­fylgja henni á ein­hvern hátt.“

Upp­runa­lega hug­myndin af verkinu var að gera einn stóran skúlptúr en Róbert kveðst ekki hafa getað kúkað nóg til að sú á­ætlun gengi upp. „Ég hafði í raun ekki nógu mikinn tíma til að safna kúknum og hafði á­hyggjur af því að hann myndi rotna ef ég hefði látið hann bíða.“

Safnaði kúk í for­eldra­húsum

Róbert safnaði efni­viðnum á heimili for­eldra sinna og færði hann síðan í gróður­húsið í garði þeirra. „Þeim fannst það fínt svo lengi sem ég þreif það eftir á og að það væri til­búið fyrir sumar­daginn fyrsta.“

Í gróður­húsinu var kúkurinn mótaður og bar Róbert grímu og hanska á meðan á því stóð, enda lyktin ekki góð. Að því loknu var kúkurinn bakaður í ofni sem var stað­settur í gróður­húsinu.

Hver fígúra er gerð úr einum kúk og reyndi Róbert að móta mann­eskju úr hverjum þeirra. „Þegar kallarnir voru til­búnir þá bakaði ég kúkinn og síðan bakaði ég hann aftur til að vera alveg viss um að allt væri þurrt," út­skýrir Róbert.

Fréttablaðið/Anton Brink

Hætt á sprengju

„Eftir að hafa bakað þetta einu sinni potaði ég stundum í kallanna og þá var eins og þeir væru rakir að innan og ég vildi ekki þeir myndu byrja að rotna eða gefa ein­hvers­konar metan­gas frá sér.“ Hefði Róbert ekki haft varann á hefðu gler­kassarnir sem um­lykja verkin verið í hættu á að springa.

„Það kom fyrir í Kirkju­húsinu árið 1998 þegar Ólafur Ólafs­son og Libía Ca­stro gerðu verk sem hét Tik tak og voru með fullt af líkams­vessum í suður­glugganum. Verkið sprakk síðan með til­heyrandi tjóni eftir að metan­gas fór að safnast þar saman.“

Róbert vildi ekki hætta á slíkt og þá krafðist Hafnar­húsið þess að hann myndi fylgja á­kveðnum stöðlum við gerð verksins. Hann fékk því út­gefið vott­orð frá Heil­brigðis­eftir­litinu sem gáfu leyfi fyrir að verkið yrði sýnt gegn því að það yrði bakað og stað­sett í ein­hvers­konar í­láti eða boxi.

Mælir með að fólk prófi

Að­spurður kveðst Róbert tví­mæla­laust muna gera þetta aftur þegar hann er kominn með betri vinnu­að­stöðu. „Eða þegar vetur kemur þá er kannski þægi­legra að vinna þetta þar sem maður finnur að­eins minni lykt.“ Um­hverfis­væna listin er því komin til að vera.

„Ég myndi mæla með þessu, þetta er gaman og manni líður alveg smá vel eftir á og maður verður á­nægður með að maður gerði þetta að veru­leika.“