Fallegur einfaldleikinn Hildar nýtur sín bæði í matargerðinni sem og allir umgjörð. Við fengum Hildi til að deila með okkur uppskrift fyrir páskana og hvernig páskahefðirnar hennar og fjölskyldunnar eru.

Heldur þú í matarhefðir og venjur á páskunum?

„Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei eldað sjálf páskamatinn. Við borðum alltaf hjá foreldrum okkar en þá er oftast kalkúnn eða lambakjöt á boðstólum sem mér finnst mjög páskalegt. Einnig kaupi ég alltaf páskagreinar og skreyti fyrir páskana. Að lokum þá finnst mér mjög mikilvægt að eiga ljúffengt páskaegg til að gæða sér á á páskadagsmorgunn.“

Áttu þér þitt uppáhalds páskaeggi?

„Mér finnst alltaf mjög gaman að prófa nýtt páskaegg. Það er svo mikið í boði. En aðalatriðið er að eggið sjálft sé mjög gott, mér finnst súkkulaðið best.“

Hildur segist stundum föndra fyrir páskana með börnunum og þá skreyti þau egg. Það sé þó ekki fastur liður, fer bara eftir tíðarandanum að hverju sinni.

Góður eftirréttur á páskunum skiptir máli

Aðspurð segir Hildur að henni finnist að það verði að vera góður páskaeftirréttur að njóta. „Mér finnst mjög mikilvægt að vera með góðan eftirrétt á páskunum og þess vegna ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum að einföldum eftirréttum sem eru borin fram í glösum eða krukkum. Ostaka með möndlusmjöri, haframulningi og ferskum berjum sem er aðeins í hollari kantinum og marengs í glösum með dumle, rjóma, jarðaberjum, ástríðuávexti og fræjum úr granatepli.“

Mæli með að dreifa minna í krukkurnar/glösin ef að þið viljið minni skammta.“

Þeir eru glæsilegir eftirréttirnir hennar Hildar.

EFTIRRÉTTIR Í KRUKKUM

Ostaka í krukku með kókos- og möndlusmjöri og haframulningi

Fyrir 4

1 dós Philadelphia rjómaostur

2 dl rjómi

4 msk. kókos og möndlusmjör með döðlum frá Rapunzel

Smátt skorin hindber eftir smekk

Smátt skorin jarðaber eftir smekk

Ristaðar möndluflögur, má sleppa

Haframulningur

1 1/2 dl grófar hafraflögur frá Rapunzel

½ dl spelt

½ dl kristallaður hrásykur frá Rapunzel

80 g smjör

  1. Byrjið á því útbúa haframulninginn. Skerið smjörið í litla bita og blandið öllu saman með höndunum. Dreifið á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið í 15-17 mínútur við 190°C eða þar til blandan verður gyllt og stökk. Það þarf að hræra í blöndunni nokkrum sinnum á meðan hún er að bakast.
  2. Hrærið saman rjómaosti og kókos-og möndlusmjöri.
  3. Þeytið rjóma og blandið saman við rjómaosta blönduna.
  4. Dreifið 1-2 msk af haframulningi í botninn á krukku eða glasi. Því næst dreifið 2-3 msk af rjómaosta blöndunni og svo berjum eftir smekk. Dreifið aftur haframulningi, rjómaosta blöndunni og berjum. Skreytið með smá haframulningi og möndlu-og kókosmjöri.

Marengs í krukku með Dumle

Fyrir 4

1 marengsbotn (ég keypti tilbúinn)

4 dl þeyttur rjómi

1 Dumle súkkulaðiplata (fæst í Hagkaup og Fjarðarkaup)

3 msk. rjómi

Smátt skorin jarðarber eftir smekk

1-2 ástríðuávextir

Fræ úr ½ granatepli

  1. Byrjið á því að bræða Dumle súkkulaðiplötuna í potti ásamt 3 msk. af rjóma við vægan hita og kælið. Saxið smá af súkkulaðinu áður til að skreyta með. Ef blandan er of þykk þá er gott að bæta smá rjóma saman við.
  2. Þeytið rjómann.
  3. Brjótið marengsinn í litla bita og dreifið í botninn á krukku eða glasi. Því næst er þeyttum rjóma dreift yfir, berjum, granateplafræjum, ástríðuávexti og Dumle súkkulaðið. Endurtakið þetta og skreytið með saxaða Dumle súkkulaðinu.